Í ágúst árið 2022 mátti litlu muna að illa færi þegar hópferðabifreið mætti fólksbíl í hlíðum Stórhöfða. Í kjölfarið komu fulltrúar Vegagerðarinnar til Eyja til að skoða aðstæður og huga að betrumbótum á veginum.
Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar var vegurinn lagfærður sl. sumar. „Þ.e.a.s. breikkaður á köflum, útbúin voru mætingaútskot og sett vegrið á tveimur stöðum. Það á þó eftir að setja klæðningu yfir kaflana sem voru breikkaðir og verður það vonandi gert í sumar.“
Hann segir í samtali við Eyjar.net að Vestmannaeyjabær hafi séð um að fá verktaka í breikkunina fyrir Vegagerðina og sá HK. Haralds ehf. um að setja upp vegrið. Aðspurður um hver muni setja klæðninguna á veginn segir G. Pétur að ekki sé búið að semja við neinn um það, en farið verður í það í vor.
Vinsælasta svæði Heimaeyjar yfir sumartímann
Eyjar.net fékk Alfreð Alfreðsson, leiðsögumann og rútubílstjóra til að skoða endurbæturnar í höfðanum, en hann þekkir það vel að keyra um höfðann á stórum bílum og rútum oft í mikilli traffík.
„Það er auðséð á þessu að þeir sem ákveða vita ekki mikið um þá umferð sem um Stórhöfða fer. Þetta er vinsælasta svæði Heimaeyjar yfir sumartímann, þegar allflestir ferðamenn vilja sjá lundann, einkennisfugl okkar Eyjamanna.
Vegurinn upp er einungis 800 metra langur, og hluti minnsta þjóðvegar landsins. Að tvöfalda veginn ekki allan er skömm Vegagerðarinnar og unnin af sömu vagnhestahugsun og svo margt annað hjá þeirri stofnun, Þegar ekið er um höfðann í dag má sjá að ekki vantar mikið upp og varla mikill kostnaður við að ljúka við verkið.“ segir Alfreð.
Þá segir hann að efst á höfðanum sé bílastæði sem auðvitað sé hálfklárað. „Þar þyrfti að flytja austurhluta hlaðna veggsins til enda nýs hluta stæðisins í austri. Á miðju plani er lístaverk eftir Örn Þorsteinsson sem myndi sóma sér ágætlega utan stæðsins en það er er það einungis til vandræða þar sem það er.“
Ættu að hlusta á þá sem þangað koma oft
Að sögn Alfreðs þarf að merkja rútum sérstök stæði og ætti að gera það í samvinnu við þá sem stærri ökutækjum aka, enda mikilvægt að auðvelt sé að leggja þeim og aka frá stæðinu.
„Neðra stæði er til mikillar fyrirmyndar en þó er kominn tími til að huga að stækkun þess. Eitt þeirra atriða sem taka mætti til greina þegar skipulag Stórhöfða er annars vegar sú staðreynd að engin salernisaðstaða er þar og þarfnast sá málaflokkur brýnna úrbóta.
Að lokum, leggja mætti áherslu á göngustíg alla leið í höfðann, enda mikil slysahætta á veginum þangað vegna þess fjölda sem þangað sækir. Þeir sem koma að því að skipuleggja höfðann koma þangað sjaldan eða aldrei. Þeir ættu því að hlusta á þá sem þangað koma oft daglega. Af hverju er ekki ökutækjateljari í höfðanum?“
https://eyjar.net/2022-08-21-hopferdabifreid-i-vandraedum-i-storhofda/
https://eyjar.net/2022-08-22-buid-ad-opna-storhofda-aftur-fyrir-bilaumferd/
https://eyjar.net/opid-bref-til-vegagerdarinnar/
https://eyjar.net/2022-09-13-vegagerdin-skodadi-adstaedur-i-storhofda/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst