Snorri Páll Snorrason er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1984, hann ólst upp á ósköp venjulegu heimili, Snorri faðir hans er vélstjóri og sjómaður og Helga móðir hans var verkakona og er núna húsmóðir.
Snorri Páll óx upp eins og hver annar eyjapeyji, fór að vinna í fiski með skólanum en hann var mikið í tölvum sem ungur maður. Hann ætlaði sér að verða listamaður en fékk ekki inngöngu í listaskólann og ákvað þá að fara í flugið.
Veturinn 2006 var Snorri að vinna í loðnufrystingu í Vinnslustöðinni, ég hitti hann oft við stympilklukkuna þar sem við heilsuðum hvor öðrum og ræddum málin sem hæst bar hverju sinni. Á miðri vertíðinni hætti ég að hitta hann við stympilklukkuna og eftir einhverja daga hringdi ég heim til hans og spurði Helgu hvort drengurinn væri veikur, þar sem hann hafi ekki mætt í vinnu í nokkra daga. „Nei, hann er ekki veikur, hann er farinn til Bandaríkjanna að læra að fljúga“. ????????????????? Er ekki í lagi með drenginn, hugsaði ég, og það á miðri loðnuvertíð. En svo undarlega vildi til að vertíðin hélt áfram þrátt fyrir að Snorri hafi ákveðið að læra að fljúga.
Snorri byrjaði að læra að fljúga í Naples í Flórída í mars 2006, þar var hann í rúmt ár og lauk við að læra atvinnuflugmanninn. Frá Naples lá leiðin til Noregs, þar var hann í þrjá mánuði, lærði þar til flugkennarans og hélt þaðan til Spánar og kenndi þar í tvo mánuði. Frá Spáni lá leiðin til Belgíu þar sem hann kenndi flug í 3 mánuði, og þaðan fór Snorri til Danmerkur þar sem hann kenndi flug í tvö ár. Síðastliðin tvö ár hefur hann flogið Fokker 50 hjá Airbaltic í Letlandi. Frá því í apríl í vor er Snorri flugmaður á Airbus A-320 hjá Wow air en byrjaði að fljúga þeim í júní í sumar.
Þegar ég frétti að Snorri væri búinn að fá starf hjá Wow air var ég ákveðin að ég skyldi fljúga með honum. Eftir að hafa rætt við Baldvin forstjóra Wow air og svo við Snorra sjálfan var málið leyst, aðeins að finna tíma sem hentaði báðum og það var ferð til Þýskalands þriðjudaginn 10. júlí sl.
Ég þurfti að vakna snemma og var vaknaður kl. fjögur, eftir að hafa farið í sturtu var keyrt til Keflavíkur, veður var eins og best er kosið, heiðskýrt og logn. Þegar skáningu var lokið hjá Wow air fékk ég mér ágætan morgunmat og kom mér fyrir við útgöngudyr 15. Fyrir utan sá ég tvær Airbus vélar Wow air, á annari stóð Wow Force One og hinni Wow Force two, húmorinn í lagi hjá Wow air fólkinu, Ég átti að fara með Wow Force One, sem er með kallmerkið LY-VEY, skemmtilegt fyrir eyjamanninn. Áætlun flugsins var að halda af stað frá Keflavíkurflugvelli kl. 07,00 til Stuttgart, þaðan til Kölnar og til Keflavíkur aftur kl. 16,45. Flugmennirnir gengu um borð í flugvélina um einni klst. fyrir brottfaratíma, þurfa að plana flugið og gera allt klárt fyrir flugið. Farþegar voru kallaðir um borð, ég fór í rólegheitum og reyndi að vera aftarlega, vildi mynda vélina að utan, þar sem farþegar fóru ekki um borð í rana í vélina. Þegar um borð í vélina kom kynnti ég mig og var umsvifalaust vísað inn í flugstjórnarklefann. Eins og áður er getið voru þeir þar, Snorri Páll flugmaður og Lambrianidis George flugstjóri, alltaf kallaður George.
Ég kom mér fyrir í kóveraflugmannsstólinn, þeir eru tveir annar fastur aftan við flugstjórasætið hin aftan við flugmannssætið, sá stóll er þannig að maður getur rennt honum til hliðar þannig að maður situr í miðjunni og sér á milli flugmannanna. Flugmennirnir buðu mig velkominn um borð, Það eina sem ég var beðin um var að tala ekki mikið fyrr við værum komnir upp fyrir 10,000 feta hæðina, það var ósköp auðvellt að verða við því, hafði einfaldlega nóg með að mynda og fylgjast með störfum flugmannanna.
Georg flugstjóri kemur frá Grikklandi, hann er einn af fjórum flugstjórum félagsins sem hefur það hlutverk að þjálfa upp menn á flugvélarnar. Hann er mjög þægilegur og var óþreyttur að upplýsa mig um allt er viðvíkur flugið og flugvélarnar.
Eftir að allir farþegar voru komnir um borð og búið að kvitta undir hin og þessi skjöl var vélinni ýtt frá flugstöðinni, nú var kominn tími á að setja í gang og hefja ferðina. Vélinni var ekið eftir hliðarbraut að flugbraut 11, sem er austur-vesturbraut Keflavíkurflugvallar. Snorri sá um að stjórna vélinni og Georg var með tékklistann, þegar allt var tilbúið var vélinni gefið fullt afl og tekið á loft og haldið áleiðis að nyrsta hluta Skotland, og flogið suður fyrir Vestmannaeyjar í 39,000 feta hæð. Skyggni var gott og eyjan okkar fagra sást vel í morgunsólinni. Rétt austan við eyjar þykknaði upp og ekki sáum við neitt niður úr skýjunum fyrr en við komum aftur að sa. hluta Íslands seinna um daginn.
Það var töluvert undarlegt að koma inn í flugstjórnarklefann og sjá ekki neitt stýri, í Airbus vélunum er jostikk stýri, það er eins og maður sér hjá mörgum við tölvur þeirra. Ekki þurfa flugmennirnir að stýra vélinni alla leið með þessum búnaði, heldur eru þeir búnir að setja inn flugið, með stefnuna á hin og þennan vita og vélin sér um að fljúga sjálf. Þegar yfir vitann er komið gefur vélin frá sér lítið hljóðmerki og beygir á það borð sem snýr að næsta vita. Eftir að vélin var búinn að beygja við Skotland var stefnan tekin á vita sem er inn í miðju landi vestan við London, þaðan á London, áfram yfir á tvo vita í Belgíu, frá seinni vitanum í Belgíu til vita í Þýskalandi og til Stuttgart.
Þrátt fyrir þessi þægindi að þurfa ekki að stýra vélinni handvirkt alla leiðina, er það ekki svo að flugmennirnir séu í einhverri afslöppun og horfa út um gluggann. Þeir eru endalaust að skrá inn þau viðskifti sem eru í talstöðinni, skrifa það niður á blöð eða setja inn í tölvur vélarinnar, og er lofskeytaviðskifti voru róleg og ekki mikið að skrá, var Georg flugstjóri óþreytandi að upplýsa Snorra flugmann um flugvélina, hvað þetta gerir, hvað gera skal ef…., hámarks og lágmarkstími á hinu og þessu. Allt byggist þetta á því að menn geti brugðist við því óvænta og tekið réttar ákvarðanir ef eitthvað bregður út af því sem telst eðlilegt í fluginu. Þegar menn eru orðnir góðir og tilbúnir að takast á við hinu óvænta eru þeir góðir flugmenn.
Ekki gengur að flugmennirnir séu án matar og drykkjar í langan tíma, yfirflugfreyjan kom inn öðru hvoru og bauð morgunmat, kaffi, te eða djús, gesturinn í flugstjórnarklefanum fékk sömu meðferð og flugmennirnir og mikið var kaffið gott hjá Wow air.
Á miðjum leggnum milli Íslands og Skotlands fór ég aftur í farþegarrýmið að mynda flugfreyjurnar að störfum, einnig fékk ég að mynda ánægða farþega. Flestir voru ánægðir að vera myndaðir en eins og gengur voru nokkrir sem ekki vildu láta mynda sig.
Fyrsti áfangastaður var Stuttgart. Stuttgart er í suður Þýskalandi og þegar vélin byrjaði að lækka flugið fór að sjást land fyrir neðan okkur og svo byrjaði að sjást húsaþyrpingar og í restina borgin sjálf. Mér virtist þetta vera eins og reikna má með, skógi vaxið land og húsin yfirleitt hvít með rauðum þökum. Snorri Páll lenti vélinni á flugvellinum í Stúttgart rétt fyrir kl. 11,00. Veður var rólegt, skýjað og hiti 23°c. Eitthvað af farþegum gekk frá borði og aðrir komu um borð, tekið var bensín á vélina og allt það sem reikna má með að sé athugað. Flugmennirnir þurftu að kvitta undir þennan pappír og hin, fara út úr vélinni og taka hring um hana til að athuga hvort hitt og þetta sé ekki í lagi.
Kl. 12.00 var allt klárt, farþegarnir komnir um borð og dyrum lokað. Eftir að þotuhreyflarnir voru gangsettir var ekið að brautarendanum austanmegin og afl hreyflanna sett í botn og vélin fór á loft rúmlega 12.15 og stefnan sett á Köln flugtími þangað er um ½ tími.
Köln er staðsett í miðju Þýskalandi, vestarlega nálægt landamærum Hollands og Belgíu, rétt sunnan við Köln er borgin Bonn og maður sá á flugstöðvarbyggingunni í Köln að flugvöllurinn er kallaður Köln Bonn flugvöllur. Ágætisveður var í Köln þegar við lentum þar um korter í eitt. Stuttu eftir að við vorum komin upp að flugstöðvarbyggingunni gerði regndembu, svona eins og maður sér í bíómyndunum. Nú byrjaði allt upp á nýtt, taka bensín á vélina, fara út og ath. með hvort allt sé ekki í lagi, kvitta á hin og þennan pappír og í restina að bíða eftir hleðsluplani fyrir vélina. Afhleðslu og hleðslu var lokið og farþegar gengu um borð, hurðum lokað og allt var klárt fyrir flugtak.
Klukkan átti eftir 10 mínútur í tvö þegar hún fór í loftið frá Köln og heimferðin var byrjuð. Flugtími heim til Íslands var um þrjár klst., Þar sem rigndi í Köln var nokkuð um rafmögnuð ský yfir svæðinu og eldingar. Á radar flugvélarinnar sást vel hvað ský voru misþykk og sterk, flugmennirnir beygðu frá þeim sterkustu og settu stefnuna á fyrsta vitann þegar flugvélinn flaug upp fyrir skýjinn.
Flugið heim var eins og flugið út, skrá inn þetta og hitt, hlusta á viðskifti og stympla inn í tölvurnar, það eina sem sem ég sá umfram flugið út, var að við sáum eina flugvél fyrir framan okkur sem var með stefnu þvert á stefnu okkar, flugturninn hafði látið okkur vita af flugvél þessari. Það kom mér kanski mest á óvart hvað maður sér lítið af flugvélum í þessu flugi yfir Evrópu, ég lít oft á vef http://www.flightradar24.com/ þar getur maður séð flugið um allan heim og maður sér sjaldnast Evrópu fyrir flugvélum. Yfirflugfreyjan kom með góðar kjötbollur sem runnu vel niður og gott kaffi á eftir.
Flugið heim gekk vel fyrir sig, vélin flaug yfir fyrirfram ákveðna vita eins og áður er skýrt frá. Þegar við vorum að nálgast landið aftur fóru skýjin að brotna upp og við fórum að sjá niður á sjóinn, einnig sá maður að Vatnajökull var á sínum stað. Veðrið hér var einfaldlega best, sólskin hægviðri og hlýtt. Suðurströndin fylgdi okkur stjórnborðsmegin, Hjörleifshöfði, Reynisfjall og Dyrhólaey voru öll þarna niðri. Stefna LY-VEY var beint yfir Heimaey. Georg flugstjóra fannst magnað að sjá Surtsey, Heimaey og Eyjafjallajökul í beinni línu, hann spurði okkur hvar á Heimaey eldgosið hafi komið upp og um nýjahraunið. Við Snorri útskýrðum það fyrir honum, enda úr þessari hæð sem við vorum í um 39,000 feta hæð fyrir austan Eyjar sást eldstöðvarnar vel. Georg mundi vel eftir gosinu í Eyjafjallajökli, ekki veit ég hvað honum finnst um þetta fólk sem býr á svona eldfjallasvæði?
Er við vorum rétt austan við Eyjar byrjaði vélin að lækka flugið, flogið var yfir Heimaey og stefnan þaðan var rétt suður fyrir Grindavík og beygt inn til lendingar rétt vestan við Grindavík. Lent var á braut 02 til norðurs og vélin lenti kl. 16,45 akkúrat á áætluðum tíma. Þegar vélin hafði staðnæmst við landgöngurana no. 1 við Leifstöð og farþegar gengnir í flugstöðinna, fór öll áhöfnin niður á flugbrautina og stillti sér upp til myndatöku við vélina.
Þetta verður mér ógleymanleg flugferð með Georg, Snorra Páli og áhöfn Wow air force one vélar Wow air félagsins, þriðjudaginn 10. júlí 2012 til Þýskalands. Hafið öll þökk fyrir.
Óskar P. Friðriksson.
https://eyjar.net/gamla-myndin-lyftugrindin/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst