Í gær greindi Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri frá því að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum og HS Veitur hefðu tekið ákvörðun um að höfða skaðabótamál á hendur Vinnslustöðinni vegna tjóns sem skip dótturfélags fyrirtækisins olli á neysluvatnslögninni milli lands og Eyja sl. haust.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir í samtali við Eyjafréttir/Eyjar.net – aðspurður um hvort deiluaðilar hafi rætt eitthvað saman áður en til þessarar ákvörðunar kom – að bæjaryfirvöld og HS Veitur hafi óskað eftir fundi með þeim vegna málsins.
„Þar mætti ég ásamt Guðmundi Erni Gunnarssyni, stjórnarformanni Vinnslustöðvarinnar og fyrrum forstjóra VÍS sem gjörþekkir tryggingarmál almennt. Auk okkar voru á fundinum Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri og Páll Erland, forstjóri HS Veitna. Þar skýrði Guðmundur hið einfalda og augljósa. Í fyrsta lagi að það giltu engar aðrar reglur um Hugin en önnur skip, hvort heldur þau væru frá Eyjum, öðrum útgerðum á Íslandi eða erlend. Guðmundur útskýrði m.a. að ef Herjólfur hefði þurft, í neyð í innsiglingunni, að varpa akkerum þá væru tjónabætur í því tilfelli 420 milljónir króna.
Í öðru lagi útskýrði hann að í tilfellum sem þessum, þar sem tjón verður og trygging bætir, þá færi tryggingfélag útgerðarinnar með málið en ekki útgerðin sjálf.
Í þriðja lagi útskýrði hann að hvorki stjórnendur né stjórn hefðu heimild til að veita einum betri rétt en öðrum. Þ.e.a.s. að bæta tjón vegna vatnsleiðslunnar umfram lög og reglur. Það varðaði við lög um umboðssvik. Stjórn og stjórnendur yrðu einfaldlega að fara að lögum og reglum og gætu ekki látið geðþótta ráða för.
Í fjórða lagi nefndi Guðmundur dæmi þegar flutningaskip sigldi á Baltimore-brúnna í Bandaríkjunum. Þar voru tjónabætur takmarkaðar við verðmæti skipsins og væru væntanlega á bilinu 2 – 5% af tjóninu sjálfu. Þar hefði forseti Bandaríkjanna lýst því strax yfir að alríkisstjórnin myndi koma að málinu og styðja við Marylandríki og byggja brúnna upp að nýju. Í dag eru framkvæmdir komnar á fullt við endurbyggingu brúarinnar og þar liggur kostnaðaráætlun og tímalína fyrir og framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Hér eru hins vegar engar áætlanir stjórnvalda eða HS Veitna, rekstraraðila lagnarinnar, komnar fram að því ég best veit.“ segir Sigurgeir Brynjar.
Kom það þér á óvart að bæjaryfirvöld hafi tekið þessa ákvörðun?
Nei, ákvörðunin kom ekki á óvart. Á fundinum með bæjarstjóra og forstjóra HS Veitna óskuðu þau eftir samningaviðræðum um auknar bætur frá Vinnslustöðinni. Guðmundur útskýrði, eins og áður segir, að við hefðum í fyrsta lagi ekki heimild til þess og í öðru lagi væri málið á forræði VÍS en ekki útgerðar Hugins. Við sögðum þeim að það væri þeirra réttur og við yrðum bara að virða hann.
Spurður um hvort hann telji að dómstólaleiðin sé besta leiðin til að útkljá þetta mál svarar Binni því játandi.
„Já, ég held það sé eina leiðin. Það eru ansi mörg tryggingamál sem enda fyrir dómi. Ég held að þetta mál sé fordæmisgefandi og verði því varla leyst öðru vísi en með dómsmáli.“
Svona innanbæjarmál hlýtur að taka á – er það ekki?
Já, auðvitað taka þau á. En það er ómögulegt að mál sem þessi fari á persónulegan eða pólitískan flöt, tala nú ekki um skítkast. Hér er einfaldlega um óhapp að ræða þar sem margir einstaklingar eru aðilar að auk Hugins ehf. og Vestmannaeyjabæjar. Eftir því sem ég veit best hafa þrír úr áhöfn Hugins stöðu grunaðs manns í rannsókn á óhappinu sem er auðvitað ekki þægilegt fyrir þá. Í mínum huga er algerlega útilokað að þeir hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi. Ég hef áður sagt að þeir hafi ekki sinnt skyldum sínum með eftirlit með öryggisbúnaði í aðdraganda óhappsins. Það er bara annað mál.
Því miður fer umræða í svona flóknu máli út og suður og erfitt að henda reiður á hvert hún fer. En í mínum huga er mikilvægast að halda sig við staðreyndir málsins og lög og reglur í málum sem þessum.
Það er t.d. algerlega óskiljanleg rök bæjarstjórnar Vestmannaeyja að vegna þess að Vinnslustöðin starfi í Vestmannaeyjum þá beri félagið aðra og meiri ábyrgð en ef annað skip hefði valdið þessu óhappi. Ábyrgð Vinnslustöðvarinnar er fyrst og fremst að viðhalda góðum og öflugum rekstri og vera á þann hátt undirstaða samfélagsins hér með því að skapa atvinnu, byggja upp fjölbreyttara og sterkt atvinnulíf, sem er undirstaða byggðar í Eyjum og skatttekna sveitarfélagsins og tekna þjónustuaðila auk þess að styrkja íþrótta- og menningarstarf.
Á sama hátt eru það algerlega óskiljanleg rök að halda því fram að með því að greiða ekki umframbætur þá sé útgerð Hugins að leggja aukinn kostnað á íbúa Vestmannaeyjabæjar. Þessi fullyrðing fær ekki staðist neina skoðun. Við erum bara undir sömu lögum og reglum og aðrir.
Þá má segja frá því að á framangreindum fundi spurði ég forstjóra HS Veitna og bæjarstjóra hvers vegna þau hefðu ekki tryggt vatnsleiðsluna fyrir tjóni. Svarið var að innviðir væru venjulega ekki tryggðir. Það er auðvitað ákvörðun sem tekin hefur verið og HS Veitur og Vestmannaeyjabær bera ábyrgð á. Það er ekki á ábyrgð Vinnslustöðvarinnar að vatnslögnin sé ekki tryggð. Vinnslustöðin og fyrirtæki í samstæðu hennar hefur sínar vátryggingar sem bæta tjón sem verða af þeirra völdum í samræmi við lög, reglur og alþjóðasamninga.
Það væri nær að bæjaryfirvöld og HS Veitur ásamt stjórnvöldum, nýttu orku sína í að snúa sér að endurbótum á leiðslunni og létu lögfræðingum eftir að útkljá deilumálið fyrir dómstólum, segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í samtali við Eyjafréttir/Eyjar.net.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst