Jólahvísl 2023 verður á sínum stað í sjöunda skiptið í kvöld kl 20:00 – ATH FRÍTT INN –
„Það verður að viðurkennast að þetta er eitt þeirra verkefna sem ég er langstoltastur af að vera þátttakandi í ár hvert,“ segir Helgi Rasmussen Tórzhmar á FB-síðu sinni. „Þetta er krefjandi en að sama skapi mjög gefandi og kærleiksrík samvera með yndislegu fólki. Það hefur margt dásamlegt fólk komið að Jólahvísli síðan 2016. Hefur rétt út hjálparhönd í að gera tónleikana að veruleika hverju sinni. Erum við sem stöndum að Jólahvísli afar þakklát fyrir hjálpsemi þeirra sem hafa sett svip sinn á tónleikana á einn eða annan hátt.
Hlutir gerast alls ekki að sjálfum sér og ekki sjálfgefið að fá gott fólk til að gefa alla sína vinnu í svona verkefni. En þetta hefst allt saman með vinskap, samvinnu, þolinmæði, virðingu og kærleik milli bræðra og systra. Kærleiksþakkir til ykkar allra sem hafa tekið þátt í Jólahvíslinu síðast liðin ár.
Ekki má gleyma öllu því yndislega fólki sem hefur komið á tónleikana okkar og þökk til þeirra sem hafa lánað okkur tæki og tól til að sinna þessu praktíska, eins og sviðið og tæknidót.
Þið eru öll ómetanleg. Ár hvert breytum við einhverju í uppsetningu tónleikanna t.d. sviðsmynd, lagaval og þema til að hafa þetta sem fjölbreytilegast.
En grunnkjarninn er alltaf sá sami og yfirskrift tónleikana er alltaf sú sama: Þetta er gjöf frá okkur til ykkar.
Við gefum okkur öll í þetta með gleði og þakklæti í hjarta. Í ár verða tónleikarnir lágstemmdir og það verður „unplugged” fílingur, eins og þau séu í stofunni heima. Komið bara og njótið ,“ segir Helgi.
Mynd: Þetta er Jólahvísl hópurinn 2023. Á myndina vantar allt fólkið bakvið tjöldin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst