Gott að hafa mann með þekkingu og kunnáttu á staðnum
Freyr Friðriksson og Óskar Haraldsson, eigendur Kælifélagsins.
Nýverið var sett á laggirnar nýtt fyrirtæki í Vestmannaeyjum Kælifélagið. Það eru Eyjapeyjarnir Freyr Friðriksson, eigandi KAPP ehf og Óskar Haraldsson sem standa þar á bakvið. Blaðamaður Eyjafrétta settist niður með þeim á dögunum.

„Þetta hófst allt á því að KAPP tók þátt í útboði fyrir varmadælustöðina hjá HS Veitum, í samvinnu við Eyjablikk, Miðstöðina og fleiri aðila hér í Eyjum,“ sagði Freyr, framkvæmdastjóri KAPP ehf. sem á helmingshlut í Kælifélaginu til móts við Óskar.
„Óskar hóf svo störf hjá KAPP í Garðabænum um mánaðarmótin janúar/febrúar. Þar var hann með okkur í hinum og þessum verkefnum. Aðstoðaði okkur t.a.m. við að setja upp stóran frystiklefa hjá Nathan og Olsen niður í Klettagörðum, sinnti kæli og frysti verkefnum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að taka þátt í þjónustuverkefnum og uppsetningu á Optim-ICE ísþykknibúnaði í nokkur skip. Þegar við fengum svo þetta verkefni hjá HS veitum varð úr að Óskar fór að vinna í því þegar það fór af stað núna um miðjan júní. Kælifélagið varð svo eiginlega til upp úr því verkefni.
„Kælifélagið verður eiginlegur þjónustu- og söluaðili KAPP hér í Eyjum. Hugmyndin er sú að ég geti sinnt öllum kæli- og frystverkefnum sem til falla Eyjum ásamt öðrum tæknimálum svo sem rafmagnsverkefnum og slíku,“ sagði Óskar.
„Ef að það detta inn stærri verkefni, eins og t.a.m. varmadæluverkefni HS veitna, sendum við þá þann mannskap sem vantar til viðbótar úr Garðabænum. Þá nýtum við okkur aðstöðuna hjá Kælifélaginu hér í Eyjum,“ bætti Freyr við.

Mikil sérfræði þekking
„Við höfum aðeins verið að sinna útgerðinni hér í Eyjum en langar að sækja enn fleiri verkefni þangað,“ sagði Freyr. „Við erum með mikla sérfræðiþekkingu í bæði ammóníak- og freonkerfum. Við erum svolítið að einblína á að sækja inn á þann markað.
Einhver skip gerð út hér frá Eyjum eru til að mynda með ísþykknibúnað sem KAPP hefur verið að framleiða undanfarin ár. Við höfum selt yfir 350 slík kerfi bæði hér innanlands og erlendis undir nafninu Optim-ICE. Þennan búnað mun Kælifélagið sjá um að selja og þjónusta. Til viðbótar erum við svo að bjóða kæli- og frystiklefa, element inn í klefa. Við erum einfaldlega að bjóða heildarlausnir í kæli- og frystibúnaði fyrir bæði verslanir, sjávarútvegsfyrirtæki sem og annan iðnað.“
Eins og er Óskar eini starfsmaður fyrirtækisins en með auknum verkefnum yrði að sjálfsögðu bætt í þar. „Það er alveg klárt mál. Við bætum við mannskap eftir þörfum. En það er alveg ljóst að þessi markaður er svolítið erfiður, þannig. Menn eru fastir fyrir, hafa lengi verið í þjónustu hjá sama aðilanum og ekkert endilega á því að breyta því.“ Sagði Óskar
„Ég lít á þetta sem gífurlegt tækifæri fyrir Eyjamenn að hafa mann með þessa þekkingu og kunnáttu á staðnum. Ef eitthvað er að bila í stórum kerfum að þurfa ekki að vera leita suður og flytja mannskap út í Eyjar með tilheyrandi kostnaði. Það hlýtur að vera góðs viti,“ sagði Freyr að lokum.

Nýjustu fréttir

Komu inn vegna veðurs
Afslættir hverfa með bættu raforkuöryggi
Jason Stefánsson meðal útskriftarnema FÍV 
Foreign Monkeys gefa út þriðju breiðskífu sína – „III“
Úttekt á fasteignagjöldum ársins
Mikil gróska í fimleikastarfi og mót framundan
Hlutafjáraukning Eyjaganga langt komin
Áframhaldandi hvassviðri út vikuna  
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.