Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular veðurviðvaranir á Suðurlandi og Suðausturlandi. Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi laugardaginn 3 ágúst kl. 06:00 og gildir til kl. 16:00 sama dag. Austan hvassviðri í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum (Gult ástand)
Austan 15-20 m/s syðst á svæðinu, þ.e. undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum og þar má búast við snörpum vindhviðum. Hægari vindur annars staðar á svæðinu. Tjöld geta fokið og fólk er hvatt til að huga að lausamunum. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, segir í viðvörunarorðum Veðurstofunnar.
Í hugleiðingum veðurfræðings frá því síðdegis í dag segir: Myndarleg lægð á Grænlandshafi þokast nú í átt til okkar, um helgina lónar hún fyrir sunnan land og beinir til okkar austlægri átt og úrkomu með köflum.
Austan og norðaustan kaldi eða strekkingur á morgun og rigning á Suðaustur- og Austurlandi, talsverð úrkoma á Austfjörðum síðdegis. Í öðrum landshlutum verður þurrt að mestu framan af degi þó einhverjir dropar geti fallið af og til, en undir kvöld gengur úrkomusvæði vestur yfir landið og það rignir um tíma víðast hvar. Hiti 9 til 17 stig, mildast vestanlands.
Annað kvöld dregur úr vætu en um nóttina bætir í vind syðst á landinu, og fyrri part laugardags er útlit fyrir austan hvassviðri á svæðinu frá Öræfum og vestur undir Eyjafjöll, þar á meðal í Vestmannaeyjum. Varasamar aðstæður geta skapast fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind auk þess sem veðrið getur haft talsverð áhrif á tjaldferðalanga. Eftir hádegi dregur smám saman úr vindi á þessum slóðum.
Í öðrum landshlutum verður vindur hægari og væta með köflum, en yfirleitt þurrt og milt á Vesturlandi og í innsveitum á Norðurlandi.
Norðaustan og austan 5-13 m/s á sunnudag og áfram svipað veður, en spár gera ráð fyrir leiðindaveðri á mánudag og er fólk hvatt til þess að fylgjast með veðurspám þegar nær dregur.
Spá gerð: 01.08.2024 15:38. Gildir til: 02.08.2024 00:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst