Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur náð samkomulagi við Gunnar Heiðar Þorvaldsson um hann taki við sem aðalþjálfari meistaraflokks karla út leiktíðina 2023.
Frá þessu var greint á Fótbolti.net.
Gunnar átti glæsilegan feril sem leikmaður í fjölda ára bæði hérlendis og erlendis. Gunnar Heiðar er frá Vestmannaeyjum þar sem hann lék með ÍBV og KFS en auk þess spilaði hann með Halmstads BK, Hannover 96, Valerenga, Esbjerg FB, Reading, Fredrikstad FK, IFK Norrköping, Konyaspor og BK Hacken.
Gunnar Heiðar lék 24 A landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim fimm mörk. Gunnar sem er 41 árs kom KFS upp í 3. deild 2020 og stýrði svo Vestra í Lengjudeildinni í fyrra. Undir hans stjórn endaði Vestri í tíunda sæti Lengjudeildarinnar.
Gunnari til halds og trausts verður sama þjálfateymi og var með fyrrum þjálfara meistaraflokks, Arnari Hallssyni.
„Njarðvík býður Gunnar hjartanlega velkominn til starfa hjá félaginu og vonast til að samstarfið verði farsælt og Njarðvík verði áfram í Lengjudeildinni sumarið 2024,” segir í tilkynningu félagsins.
Njarðvík er með átta stig eftir tólf leiki í Lengjudeildinni en liðið ætlaði sér stærri hluti fyrir þessa leiktíð.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst