Umsókn um byggingarleyfi við Heiðarveg 12 var til umræðu á fundi umhverfis og skipulagsráðs í vikunni. Þar lagði Ríkarður Tómas Stefánsson fyrir hönd Steini og Olli-bygg.verkt ehf. fram uppfærð gögn vegna skuggavarps vegna umsóknar um byggingarleyfi við Heiðarveg 12.
Ein athugasemd barst í grenndarkynningu frá íbúa við Heiðarveg 11 vegna skuggavarps á svölum.
Ráðið samþykkti breytingartillögu deiliskipulags sbr. ákvæði Skipulagslaga nr.123/2010 og vísaði til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Í niðurstöðu ráðsins kemur fram að fyrirliggjandi skuggavarpsbreytingar sýna að breytingar á byggingu við Heiðarveg 12 munu á ákveðnum tíma ársins, snemma vors og hausts, hafa áhrif á skuggavarp. Ráðið metur breytingu á skuggavarpi þó ekki nægilega sterka forsendu til að koma í veg fyrir þéttingu byggðar við Heiðarveg. Eitt af meginmarkmiðum Aðalskipulags er að þétta byggð á miðbæjarsvæði og fylla í þær eyður sem eru í byggðinni, fjölga íbúðum, sérstaklega á efri hæðum. Heiðarvegur 12 er gott dæmi um þéttingu byggðar. Skuggavarpsteikningar sýna að skuggavarp þeirrar hækkunar á byggingarreit sem um ræðir hefur hverfandi áhrif á nærliggjandi hús. Sem fyrr er vandasamt að þétta byggð. Heiðarvegur 12 er góð staðsetning fyrir þéttingu byggðar þar sem lóðin er nálægt stórum atvinnufyrirtækjum, verslun og þjónustu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst