Nú standa yfir framkvæmdir á Hásteinsvelli, en sem kunnugt er á að setja á hann gervigras. Farið er yfir stöðu framkvæmda á vellinum á vef Vestmannaeyjabæjar í dag. Þar segir að VSÓ ráðgjöf hafi séð um hönnun, verklýsingar og gerð útboðsgagna fyrir Vestmannaeyjabæ eins og þeir hafa gert fyrir fjölda annarra sveitarfélaga í gegnum tíðina. Hluti af þeirri vinnu snýr meðal annars að því að framkvæmdin uppfylli alla staðla og reglugerðir sem gilda hjá KSÍ til að Hásteinsvöllur fái keppnisleyfi.
Staðan á framkvæmdinni er sú að búið er að bjóða út jarðvinnu og lagnir. Framkvæmdir eru hafnar og eru áætluð verklok við þennan verkþátt fyrir 1. apríl. Þá er búið að bjóða út tæknirými fyrir stjórnbúnað vatnsúðarakerfis og flóðlýsingar. Framkvæmdaraðili í jarðvinnu er að undirbúa undirlag fyrir byggingu og er áætlað að framkvæmdir hefjist fljótlega og á þeim að vera lokið fyrir 1. maí.
Búið er að opna útboð vegna fjaðurlags, gervigrass og niðurlagningu og verður lagt fyrir framkvæmda- og hafnarráðs til ákvörðunartöku á fundi í næstu viku. Áætlað er að framkvæmdir hefjist 1. apríl og verði lokið 1. maí. Að endingu segir í fréttinni að áætlað sé að bjóða út flóðlýsingu seinna á árinu 2025 og gert ráð fyrir að verklok séu á fyrsta ársfjórðungi 2026.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst