Veiðar á íslensku síldinni eru hafnar og hafa bæði Ísfélag og Vinnslustöð tekið á móti afla. Öll áhersla er lögð á að vinna sem mest til manneldis. Má því búast við mikilli vinnu í stöðvunum á vertíðinni.
Hjá Ísfélaginu fór Álsey í sinn fyrsta túr á mánudaginn. „Hún er núna að landa 650 tonnum sem fengust á Breiðafirði. Heimaey fer þegar veður lagast um helgina. Við erum með 9000 tonn til ráðstöfunar og vinnum allt í manneldi,“ sagði Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu.