Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, sótti heim Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu í liðinni viku. Lauk þar með heimsókn ráðherra í alla 27 opinberu framhaldsskóla landsins á síðustu sjö vikum. Aldrei fyrr hefur ráðherra heimsótt alla skólana á eins skömmum tíma. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að markmið heimsóknanna hafi verið að ræða málefni framhaldsskóla við skólameistara og starfsfólk, sér í lagi sameiginlega stjórnsýslu á vegum nýrra svæðisskrifstofa.
Markmið verkefnisins Sjálfstæðir skólar og sameiginleg stjórnsýsla er að styrkja framhaldsskólakerfið og efla þjónustu við starfsfólk og nemendur. Áhersla er á að halda í sérstöðu og sjálfstæði skóla en stytta boðleiðir og bæta þjónustu. Mennta- og barnamálaráðuneytið tilkynnti um áform sín í september og eru heimsóknir í framhaldsskólana hluti af samráði við frekari mótun svæðisskrifstofa.
Ráðherra átti gott samtal um skólastarf á framhaldsskólastigi, kynnti áformin og fékk mikilvæga endurgjöf. Rætt var við kennara, stjórnendur og starfsfólk, og við nemendur eftir atvikum í hverjum skóla. Að loknum heimsóknum í framhaldsskólana fundaði ráðherra með nýrri stjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema.
Samhliða samráði við skólasamfélagið hefur farið fram samráð við fjölbreyttan hóp hagsmunaaðila. Fundað er reglulega með Félagi framhaldsskólakennara og félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Aðrir aðilar sem ráðuneytið hefur átt samtal við eru m.a. Skólameistarafélag Íslands, Félag fjármálastjóra í framhaldsskólum, Félag skjalastjóra í framhaldsskólum, Félag náms- og starfsráðgjafa, ADHD samtökin, Þroskahjálp, Þroskaþjálfafélag Íslands, og landshlutasamtök sveitarfélaga.
Á vegum stýrihóps verkefnisins hefur farið fram samanburður á fyrirkomulagi stjórnsýslu framhaldsskóla á hinum norðurlöndunum, Skotlandi og Kanada. Í öllum þeim ríkjum er sérstök stjórnsýslustofnun sem fer með tiltekin verkefni gagnvart framhaldsskólum í umboði í ráðuneytis, en hlutverk ráðuneytis er fyrst og fremst stefnumótandi og að sinna lögbundnu eftirliti með starfseminni.
Mennta- og barnamálaráðuneytið vinnur nú úr þeim ábendingum sem bárust úr skólaheimsóknunum. Næstu skref eru að skilgreina valkosti út frá markmiðum verkefnisins og framkvæma kostnaðargreiningu á þeim, segir að endingu í tilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst