Hlynur Már heiðraður fyrir frækilega björgun
2. júní, 2024
DSC_4310
Gísli Matthías Sigmarsson, formaður Sjómannadagsráðs, Hlynur Már og Ríkharður Stefánsson í Sjómannadagsráði. Mynd/Óskar Pétur.

Sjómannadagsráð Vestmannaeyja sæmdi Hlyn Má Jónsson, vert á Lundanum heiðursskildi fyrir hetjulega björgun sjómanns úr höfninni í Vestmannaeyjum þann 27. febrúar 2024. Málsatvik voru þau að Hlynur skutlar tveimur úr áhöfn Kap II VE um borð. Annar fer strax um borð en hinn er í smá spjalli í bílnum hjá Hlyni. Fer síðan og röltir upp landganginn sem var illa eða ekki festur við skipið.

Þetta kom fram hjá Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambandi Íslands sem afhenti viðurkenningar á hátíðardagskrá Sjómannadagsins á Stakkó í Vestmannaeyjum í dag. „Þegar hann er kominn langleiðina um borð teygir félagi hans, sem var um borð, sig í hann en fellur við og steypist með höfuðið á undan milli skips og bryggju,“ sagði Valmundur.

„Hlynur sér þetta útundan sér en hann var að snúa bílnum við. Hann bregður skjótt við og hleypur að bátnum. Sá sem var í landgangnum fraus alveg og gat ekki gert neitt. Hlynur ætlar að príla niður til mannsins en hættir við sem betur fer.

Fer um borð og finnur færi á belg sem hann kastar til mannsins sem er með meðvitund allan tímann. Maðurinn nær taki á færinu og vefur því um hendina. Nú nær Hlynur að hringja í 112 og tilkynna slysið. Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang að sögn Hlyns og hann hrósar þeim í hástert.

Kramdist milli skips og bryggju

Tveir lögreglumenn komu fyrstir og síðan fólk úr björgunarsveitinni og slökkviliðinu. Lögreglan er með Björgvinsbelti í bílnum sem þeir notuðu til að ná manninum úr sjónum. Maðurinn hafði kramist að minnsta kosti þrisvar sinnum á milli skips og bryggju áður en honum var bjargað.

Hlynur vill taka fram, og leggur til, að Björgvinssbelti ætti að vera á hverjum landgangi sem tengir skip og bryggju. Hann vonar að enginn þurfi að lenda í svona lífsreynslu og til þess þarf fyrirbyggjandi aðgerðir,“ Valmundur og bætti við.

„Hlynur Már Jónsson, hafðu þökk fyrir að bjarga manni í nauð. Takk fyrir að leggja þig í hættu fyrir aðra. Sjómannadagsráð Vestmannaeyja sæmir þig heiðursskildi og merki fyrir björgunina og þakkar í leiðinni þeim sem að björgunninni komu. Lögreglunni í Vestmannaeyjum, Björgunarfélagi Vestmannaeyja og Slökkviliði Vestmannaeyja. Njóttu sæmdar þinnar Hlynur Már,“ sagði Valmundur að endingu.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst