Hvenær er Vestmannaeyingur Vestmannaeyingur?
Vigdís Jóhannsdóttir

Eftir 10 ára búsetu í Brooklyn í New York tók fjölskyldan ákvörðun í byrjun þessa árs að nú væri komin tími til að fara aftur til Íslands, fara heim.  En þá vaknar spurningin hvert er “heim” nákvæmlega ?  Fyrir 15 ára son minn sem flutti til New York þegar hann var nýorðinn 6 ára og hafði aldrei gengið í íslenskan skóla þá er það ekki alveg borðliggjandi.  Fjölskyldan settist því niður og eftir töluverðar umræður þá vorum við sammála um að Vestmannaeyjar væru okkar “heim”.

Ég er fædd hér og uppalin og sonur minn er Vestmannaeyingur í 4. ættlið.  Á hverju ári s.l. 10 ár eyddum við fjölskyldan alltaf part úr sumri þegar við komum til Íslands í Eyjum – oft fyrir, á og eftir Þjóðhátíð.  Hér býr Kristín systir mín á æskuheimili okkar á Hólnum og þar höfum við átt okkar herbergi og okkar “dót” og hefur það verið hressileg kommúnustemming enda kemur okkur öllum sérstaklega vel saman.

Ég og maðurinn minn erum í þannig störfum að við getum í raun unnið hvar sem er og þess vegna var ekkert því til fyrirstöðu að prufa að búa í Eyjum svona á meðan við værum að venja okkur aftur við gamla landið.  Við fluttum því lögheimili okkar á Hólinn og hófum að borga útsvar til Eyja strax í febrúar, þó svo að við kæmum ekki alkomin til landsins fyrr en að loknu skólaári í New York í byrjun júlí.

Þegar haustið nálgaðist fór ég hins vegar að fá kaldar fætur yfir skólagöngu Ólívers og að vandlega hugsuðu máli og eftir ráðleggingum frá fólki sem þekktu til þá tókum við þá ákvörðun um að Ólíver færi í Hagaskóla, sem er sennilega sá gagnfræðaskóli á Íslandi sem hefur hvað mesta reynslu af því að taka á móti nýbúum og tvítyngdum unglingum sem dvalið hafa langtímum erlendis.  Ólíver byrjaði því í Hagaskóla og mér var sagt að ég þyrfti bara að sækja um hjá Vestmannaeyjabæ um að það yrði borgað með honum til Reykjavíkur fyrir skólavistina og mér var sagt að þetta væri ekki nema eins og eitt símatal, við vorum jú búin að borga útsvar til Eyja í marga mánuði. Þetta einfalda mál átti hins vegar eftir að verða stór mál, há pólitískt, þar sem fólk kastaði heitu karföflunni á milli sín,

Í byrjun skólaárs talaði ég við fræðslufulltrúan í Vestmannaeyjum og segi henni hvernig mínum málum sé háttað og hún segir mér að prenta út eyðublað sem ég finni á vef Samtaka sveitafélaga.  Ég fyllti út og sendi eyðublaðið til Fræðslunefndar og það er skemst frá því að segja að erindi mínu er hafnað án frekari útskýringa.

Við vorum auðvitað ekki sátt við svarið og töluðum því við forstöðumann sviðsins sem í framhaldinu biður okkur í öllum bænum að senda erindið aftur ásamt nánari útskýringum því þetta sé auðvitað galið að neita Vestmanneying í 4. ættlið um að greitt sé með honum í skóla í Reykjavík þetta eina ár sem hann á eftir í grunnskóla.  Það verður úr að ég sendi annað og ítarlegra erindi til Fræðslunefndar en það fór eins og fyrr og Vestmanneyjar neita að greiða með drengnum í skóla í Reykjavík.

Að þessu sinni voru skýringarnar í bréfinu þær að umsóknin “samræmist ekki reglum sveitafélagsins og reglum Samtaka sveitafélaga” um greiðslur með barni í skóla í öðru sveitafélagi en það á lögheimili.  Ég hringi því aftur í fræðslufulltrúan og óska eftir nánari skýringum, t.d. því hvort hún geti gefið mér upp hvar ég finni þessar reglur nákvæmlega.  Hún svarar því að reglurnar séu í raun ekki til í sveitafélaginu Vestmannaeyjar en ég geti fundið þær á vef Samtaka sveitafélaga en hún gat ekki sagt mér hvar.  En það var annað og meira sem fram kom í þessu símtali þegar hún sagði mér að í raun væru það lögheimilislögin sem hefðu vegið þyngst og að á endanum hefði hún ekkert um málið að segja því “pólitíkin tók yfir” eins og hún orðaði það.

Í ljósi þess að ég þekki ekkert af þessum pólitískt kjörnu fulltrúum sem hér um ræðir geri ég mér enga grein fyrir hvernig það góða fólk veit hversu miklum tíma ég eyði í Vestmannaeyjum.  Hvernig stendur á því að pólitískt kjörninr fulltrúar taka fram yfir hendurnar á fagfólki ?  Og ef verið var að hengja sig í lögheimilislögin hvers vegna var þá enginn búin að setja sig í samband við okkur og afþakka útsvarið okkar fyrst pólítíkusarnir í Eyjum voru svona vissir um að við værum minnna í Eyjum en annar staðar ?  Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki einhver slangur af Vestmannaeyingum sem jafnvel býr erlendis sem enn er með lögheimili í Eyjum ?

Það er greinilega ekki sama hver er, ég er jú bara yngsta barnið hans Jóa á Hólnum og þetta var bara dóttursonur hans sem var synjað um að fá að vera Vestmannaeyingur.

Vigdís Jóhannsdóttir

Nýjustu fréttir

Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.