Í aðdraganda jóla heyrðum við í nokkrum íbúum Vestmannaeyja og fengum innsýn í hvernig þau undirbúa hátíðirnar, hvaða hefðir þau halda í og hvað gerir jólin svo sérstök. Allir voru sammála um að samveran með fólkinu sínu er það sem mestu máli skiptir yfir hátíðarnar.
Fjölskylda?
Unnusti minn er Hlynur Freyr Ómarsson. Dóttir okkar er 2 ára og heitir Merkel Marey.
Hvernig leggjast jólin í þig?
Ég hef aldrei verið mikið jólabarn en þetta er aðeins að breytast eftir að ég eignaðist barn, þannig þau leggjast bara ágætlega í mig.
Fer mikill undirbúningur í jólin?
Já og nei. Ég sé um allar gjafir en ég er mjög skipulögð og er yfirleitt búin að öllu í byrjun nóvember. Annars er fókusinn svolítið á vinnunni í desember svo enginn fari í jólaköttinn.
Ertu með sérstaka hefð?
Nei ekkert þannig, jólin hafa breyst svolítið síðustu tvö ár og við erum ennþá að “búa” til okkar hefðir en mér finnst samt alltaf voðalega kósý að fara með foreldrum mínum í kirkjugarðinn á aðfangadag.
Uppáhalds jólalag?
Ég elska jólaplötuna hans Stebba Hilmars, mæli með! En annars er líka í uppáhaldi “Þegar vetur” með Iceguys.
Hvað er í matinn?
Hjá foreldrum mínum er alltaf nautalund sem er uppáhaldið. Núna er ég annað hvert ár hjá tengdaforeldrum og þar er rjúpa og hamborgarhryggur, ætli ég fái mér ekki bara lambaskanka eða eitthvað næs þar sem ég borða hvorugt.
Hvað stendur upp úr á jólunum?
Samverustundirnar með fjölskyldunni, göngutúrar, maturinn, nammið og föndrið.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst