Ákveðið hefur verið að fresta íbúafundi um samgöngur við Vestmannaeyjar, sem fyrirhugað var að halda í kvöld, vegna fjarveru innviðaráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.
Þar segir jafnframt að samgöngur milli lands og Eyja hafi verið með þeim hætti í dag að þær hentuðu ekki ráðherranum. Þó er rétt að geta þess að bæði var siglt og flogið til Eyja í morgun.
Ráðherrann hafði ætlað sér að koma með flugi klukkan 17 en því var aflýst vegna veðurs. Forstjóri Vegagerðarinnar kom með Herjólfi frá Þorlákshöfn í morgun en engu að síður þykir rétt að fresta fundinum úr því að hinn pólitíski ábyrgðarmaður samgangnanna getur ekki sótt hann. Fundurinn verður auglýstur þegar ný tímasetning hefur fundist.