Í maí síðastliðnum var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar að kanna hug íbúa, hvort hefja skuli vinnu við að byggja upp þróunarsvæðið M2, sem fór undir hraun í gosinu árið 1973 eða ekki. Íbúakosning verði framkvæmd samkvæmt reglugerð 0922/2023 og 60 gr. samþykktar Vestmannaeyjabæjar áður en lagt er af stað í skipulagsvinnuna en ekki á miðri leið eða að henni lokinni.
Fram kom í afgreiðslu bæjarstjórnar að stefnt sé að því að íbúakosningin fari fram samhliða næstu alþingiskosningum.
Orðrétt sagði í tillögunni:
„Í gildandi aðalskipulagi er svæði – Nýja hraun þróunarsvæði (M2) – þar kemur m.a. fram að “Miðsvæði þar sem áformað er að byggja aftur upp á svæði sem fór undir hraun í gosinu 1973. Svæðið er merkt sem þróunarsvæði og verður unnið að því á skipulagstímabilinu að móta uppbyggingaráform frekar. Möguleikar til landmótunar eru opnir en í þeim getur falist að landið verði stallað á einhvern hátt og að eitthvað af efni yrði nýtt til efnistöku.
Í ljósi þess hversu takmarkað landsvæði sveitarfélagsins er þá er lagt til að kanna hug íbúa, hvort hefja skuli vinnu við að byggja upp þróunarsvæðið M2 (samkvæmt mynd) sem fór undir hraun í gosinu árið 1973 eða ekki. Íbúakosning verði framkvæmd samkvæmt reglugerð 0922/2023 og 60 gr. samþykktar Vestmannaeyjabæjar áður en lagt er af stað í skipulagsvinnuna en ekki á miðri leið eða að henni lokinni. Stefnt er að því að íbúakosningin fari fram samhliða næstu alþingiskosningum.”
Uppfært: Á síðasta fundi bæjarráðs var málið tekið fyrir og þar kom eftirfarandi fram: Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar nr. 1606 þann 7. maí sl. að stefnt yrði að því að íbúakosning um framtíðaruppbyggingu og lóðaframboð í Vestmannaeyjum færi fram samhliða næst alþingiskosningum. Sökum lítils fyrirvara við boðun væntanlegra alþingiskosninga er undirbúningur íbúakosningar miðað við tímaramma reglugerðar, undirbúning gagna og kynningu þeirra samhliða þeim of knappur. Þar af leiðandi er ekki annað í stöðunni en að stefna að umræddri íbúakosningu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum.
Fyrisögn var breytt m.t.t. uppfærslunnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst