6. umferð Lengjudeildar kvenna kláraðist í kvöld þegar Eyjakonur tóku á móti Keflavík á Þórsvelli. Eyjakonur byrjuðu leikinn vel og strax á 10. mínútu var Lilja Kristín Svansdóttir búin að koma heimakonum yfir. Allison Clark átti þá góða sendingu í gegn á Allison Lowrey sem náði að koma boltanum á fjær þar sem Lilja Kristín kom á ferðinni og kláraði í autt markið.
Eyjakonur áttu þá eftir að fá urmul af færum og góðum upphlaupum til að bæta við fleiri mörkum en inn vildi boltinn ekki. Undir lok leiks fékk Keflavík aukaspyrnu á hættulegum stað rétt fyrir utan teig ÍBV. Aníta Lind Daníelsdóttir gerði sér þá lítið fyrir og setti boltann í netið fram hjá Guðnýju Geirsdóttur í marki Eyjakvenna. Þetta reyndist síðasta mark leiksins og liðin skiptu með sér stigunum.
ÍBV hoppaði því upp fyrir Grindavík/Njarðvík og er í 2. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er mánudaginn 16. júní gegn toppliði deildarinnar HK í Kórnum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst