Erla Rós framlengir samninginn sinn við ÍBV um tvö ár. Erla sem er einn efnilegasti leikmaður landsins er uppalin í Vestmannaeyjum og hefur alla tíð spilað fyrir ÍBV. Hún á að baki fjölda leikja með unglingalandsliðum Íslands auk þess að hafa spilað tvo leiki fyrir A landsliðið. Guðný Jenný hefur gert tveggja ára samning við ÍBV um að leika með liðinu auk þess sem hún kemur inn í þjálfarateymið. Hún á að baki 48 leiki fyrir íslenska landsliðið og hefur verið einn fremsti markmaður landsins um árabil. Jenný fór í barneignarfrí eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Val 2014. Síðan þá hefur hún verið markmannsþjálfari hjá landsliðinu og hjá kvennaliði Fylkis, en hún endaði á að spila nokkra leiki í lok tímabils með Fylki með virkilega góðum árangri. Sara Dís sem var annar markmaður liðsins í vetur er að sækja um skóla á fastalandinu og þar að leiðandi vantaði annann markmann fyrir næsta tímabil. Hrafnhildur Skúladóttir lagði mikla áherslu á að fá Jenný til ÍBV bæði þar sem hún er frábær markmaður auk þess sem hún hefur verið að gera góða hluti í markmannsþjálfun. Hrafnhildur þekkir vel til Jennýjar enda spiluðu þær lengi saman með Val hér á árum áður.