Bókin Íslensk knattspyrna 2025 eftir Víði Sigurðsson er komin út. Þetta er 45. árið sem bókin er gefin út en hún hefur komið út samfleytt frá árinu 1981. Sögur Útgáfa gefa út bókina sem er 304 blaðsíður í stóru broti og skreytt með um 450 myndum af leikmönnum og liðum.
Í bókinni er sagt ítarlega frá Íslandsmótunum 2025 í öllum deildum karla og kvenna, sem og yngri flokkunum, bikarkeppninni, Evrópuleikjunum og vetrarmótunum. Þá er landsleikjum ársins í öllum aldursflokkum gerð góð skil og fjallað sérstaklega um íslenska knattspyrnufólkið sem leikur erlendis.
Í bókinni er ítarleg tölfræði um leikmenn og lið, sjá má liðsskipan allra liða í öllum deildum í meistaraflokkum karla og kvenna, leikjafjölda leikmanna í efri deildum, leikjahæstu karla og konur, marka- og leikjahæstu karla og konur í deildakeppni hér og erlendis ásamt mörgu fleiru.
Viðtöl í bókinni eru við Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, Íslands- og bikarmeistara og markadrottningu úr Breiðabliki og fyrrum leikmanns ÍBV, Nikolaj Hansen, hinn sigursæla sóknarmann Íslandsmeistara Víkings sem hefur nú unnið sjö stóra titla með félagi sínu, og Þorvald Örlygsson formann KSÍ.

ÍBV fær sinn sess í bókinni þar sem hverri umferð er gerð skil. Þar eru ÍBV stelpurnar í stóru hlutverki eftir að hafa tryggt sér sæti í Bestu deildinni að ári og það með glæsibrag. Strákarnir héldu sínu sæti í Bestu deildinni án vandræða. Öllu þessu eru gerð góð skil í bókinni sem er að venju á allan hátt hin glæsilegasta. Víðir, sem er blaðamaður á Morgunblaðinu hefur skilað góðu starfi með útgáfu bókarinnar í öll þessi ár. Hefur hún stækkað með hverju ári, er í ár 304 blaðsíður en var 80 síður 1981. Ómetanleg heimild um sögu knattspyrnunnar á Íslandi þar sem Vestmannaeyjar hafa oftar en ekki verið í stóru hlutverki.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst