Íþróttafélagið Ægir var stofnað 12. Desember árið 1988. Ólöf A. Elíasdóttir íþróttakennari og Ólöf M. Magnúsdóttur höfðu fundið þörfina fyrir sérleikfimitíma fyrir börn í sérdeild Barnaskólans, þar sem hinum ýmsu sérþörfum þeirra yrði sinnt. Það var svo haustið 1980 sem þessi börn fengu sér-leikfimi og sundtíma. Haustið 1988 var byrjað með einn tíma í viku í Íþróttahúsinu fyrir sjö krakkar. Var þá byrjað að spila boccia og farið var í ýmsa leiki. Út frá þessari starfsemi og hvatningu frá Rannveigu Traustadóttur sérkennara og Ólöfu A. Elíasdóttur íþróttakennara var íþróttafélagið Ægir stofnað og voru stofnfélagar 23. Dagana 14-16 apríl 1989 héldu Ægisfélagar í fyrsta sinn á Íslandsmót í boccia og tókst það vel til þrátt fyrir stuttan æfingartíma. Þóra og Yfla gerðu sér lítið fyrir og komust í úrslit og enduðu í 4 og 5 sæti sem er frábær árangur eftir svona stuttan tíma af æfingum. Fyrsta stjórn Ægis var skipuð Unni Baldursdóttur sem formanni, Lóu Skarphéðinsdóttur sem gjaldkera, Elínu Egilsdóttur sem ritara, Ágústu Friðriksdóttur og Höskuldi Kárasyni sem meðstjórnendum. Fyrstu þjálfararnir voru Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir og Rannveig Traustadóttir.
Síðan þá hefur félagið staðið sig gríðarlega vel í að sjá um æfingar fyrir fatlaða einstaklinga og hefur lengst af verið farið að jafnaði á tvö íslandsmót á ári ásamt því að hafa nokkru sinnum farið á Hængsmótið á Akureyri. Félagið í dag heldur úti æfingum í boccia 2x í viku og sundi 1x í viku. Enginn yngri hópur er starfandi í dag en nýliðun hefur gengið illa að undanförnu þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið reynt. Félagið hefur mikinn áhuga á að koma af stað bocca fyrir yngri iðkendur.
Við höfum nokkrum sinnum staðið fyrir Fyrirtækjamóti í Boccia og hefur það alltaf verið mjög vinsælt og gríðarlega skemmtilegt.
Hjá félaginu æfa í dag 10-12 einstaklingar boccia og einhverjir stunda líka sundæfingarnar. Hjá okkur starfa 4 þjálfarar, 3 í boccia og 1 í sundi. Við höfum verið einstaklega heppið félag, traust fólk sem hefur starfað lengi með félaginu á einn eða annan hátt, góðir styktaraðilar og alltaf er fólk boðið og búið að aðstoða okkur eins og þau geta, án alls þessa fólks væri erfitt og jafnvel ómögulegt að halda úti jafn flottu og góðu íþróttafélagi eins og íþróttafélagið Ægir er.
Afmælisárið okkar hefur verið heldur betur viðburðaríkt, í byrjun maí fór Bernharður Jökull ásamt móður sinni Jackie og Soffíu sem var aðstoðarkona hans og þjálfari í keppni til Færeyja að taka þátt í Norðurlandamótinu og stóð hann sig afar vel á firna sterku móti. Benni var að fara í fyrsta skipti erlendis með landsliðhóp og vorum við afar stolt af honum þar. Í lok maí fóru Anton, Gummi og Birgir Reimar ásamt foreldrum og Þórínu þjálfara til Danmerkur að taka þátt í Special Olympics Idrætfestival og gerðu þremenningarnir sér lítið fyrir og komu heim með Gull, Silfur og Brons. Þeir fengu ótrúlega flottar móttökur á bryggjunni við heimkomu og erum við alveg gríðarlega stolt af þessum frábæra árangri. Í Oktober síðastliðnum héldum við gríðar stórt íslandsmót í boccia þar sem við tókum á móti um það bil 200 manns. Mótið heppnaðist á allan hátt stórkostlega og er það mikið að þakka því góða fólki sem rétti okkur hjálparhönd í hinum ýmsum verkefnum og erum við þeim óendanlega þakklát. Héðan fóru allir alsælir og talað er um eitt flottasta mót sem haldið hefur verið, það var öllu til tjaldað hvort sem það var á setningu í móti eða á lokahófi. Við viljum bara enn og aftur þakka öllum þeim sem á einn eða annan hátt hjálpuðu okkur, alveg kærlega fyrir og án þeirra hefði þetta einfaldlega ekki gengið upp. Stoltið leyndi sér ekki á okkar keppendum sem öll voru alsæl með mótið og framkvæmd þess.
Það má því með sanni segja að félagið hefur verið í flottri uppsveiflu og iðkendur okkar sýna metnað og dugnað í því sem þau eru að gera.
Þakklát og glöð höldum við vel uppá góð 30 ár í starfi og þökkum öllum þeim sem hafa komið að starfsemi félagsins.
Sylvía Guðmundsdóttir
Formaður íþróttafélagsins Ægis
Óskar Pétur Friðriksson kíkti í afmælisveisluna sem haldin var síðastliðinn sunnudag og smellti af nokkrum myndum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst