Í kvöld stendur til að heiðra íþróttafólk Vestmannaeyja fyrir liðið ár en Íþróttabandalag Vestmannaeyja hefur boðað til íþróttahátíðar þar sem verðlaunaafhending fer fram.
Samkvæmt upplýsingum á vef ÍBV er hátíðin haldin til að fagna og þakka þeim einstaklingum og liðum sem hafa skarað fram úr í íþróttum á liðnu ári. Þar verða meðal annars veittar viðurkenningar fyrir íþróttamann Vestmannaeyja, íþróttamann æskunnar auk annarra verðlauna fyrir árangur í íþróttum árið 2025.
Hátíðin verður haldin í Akóges og hefst hún klukkan 20.00. Allir eru hvattir til að mæta og taka þátt í að hylla íþróttafólkið okkar og það mikilvæga starf sem unnið er innan íþróttahreyfingarinnar í Eyjum.