Íþróttamaður mánaðarins að þessu sinni er hinn ungi og efnilegi Emil Gautason. Emil er aðeins 15 ára gamall og gríðarlega efnilegur fótboltamaður sem spilaði með KFS í 4. deildinni fyrri hluta sumars, ásamt því að leika með 2. og 3.flokki ÍBV. Emil þreytti frumraun sína með meistaraflokki ÍBV, seinni hluta tímabilsins, í 4-1 sigri gegn Val í Bestu deildinni. Hann hefur að auki æft með u-15 og u-16 ára landsliðum Íslands. Fyrr í þessum mánuði fór hann svo út á reynslu til sænsku meistaranna í Mjallby. Hann æfði með unglingaliðinu og fékk að kynnast akademíunni hjá þeim. Það verður spennandi að fylgjast með þessum efnilega fótboltamanni í framtíðinni. Við fengum að spyrja Emil nokkurra spurninga.
Aldur? 15/2010.
Fjölskylduhagir? Pabbi Gauti Þorvarðarson, mamma Elísabet Þorvaldsdóttir og systkini Erik og Manda.
Hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi? Vakna um 8 og fer í skólann. Stundum á æfingu í hádeginu og svo aftur í skólann. Annars bara æfing eftir skóla, borða og tjilla eftir æfingu. Fer í sund, spila svo smá Fifa, svo bara upp í rúm og sofna yfirleitt við podcast.
Aðal áhugamál fyrir utan fótbolta? Píla eða Fifa bara.
Hver er þín helsta fyrirmynd í íþróttum? Ronaldo.
Hvert stefnir þú í fótboltanum? Alla leið.
Hvað stóð upp úr á síðasta tímabili? Koma inn á í Bestu deildinni stóð mest upp úr. Annað eftirminnilegt er þegar ég setti fernu í 2. flokksleik.
Hvaða þrjá einstaklinga tækir þú með á eyðieyju og af hverju? Ég tæki Sigurð Val, Alexander og Heiðmar. Þeir sjá oftast vel um mig.
Sturluð staðreynd um sjálfan þig? Jeg snakker meget godt dansk.
Hefuru stundað aðrar íþróttir en fótbolta? Nei ekkert þannig en ég hef gaman að pílu.
Hvernig var að koma inn í meistaraflokkinn í sumar? Að koma inn í meistaraflokkinn var krefjandi í fyrstu en ég var fljótur að aðlagast og bætti ég mig mikið í sumar.
Hvernig var að fara á reynslu erlendis? Bara mjög gaman. Gaman að sjá hvernig þetta er úti. Mjög góð akademia og ég lærði helling.
Eitthvað að lokum? Áfram Chelsea.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst