Þar sem ég fer nú daglega, ef ég get, út að labba með hundinn minn, þá tók ég eftir því að sennilega voru u.þ.b. 90% Eyjamanna annaðhvort byrjaðir eða búnir að skreyta húsin sín fyrir lok nóvember og bara gaman að því.
Eitt af því sem ég sakna pínulítið er sá gamli góði siður, sem að mig minnir að snillingurinn Finnur teiknikennari, hafi komið á þegar börnin í Barnaskólanum máluðu alla gluggana í skólanum og eitthvað minnir mig að á árum áður hafi þetta að einhverju leyti verið tengt sögulegum atburðum hér í Eyjum. En nýir siðir koma með nýjum tíma.
Eitt af því sem rifjaðist upp fyrir mér nýlega er að fljótlega eftir gos, man ég eftir því að mamma átti líkan af Landakirkju. Líkanið var hins vegar úr pappa á þessum árum og venjan var að setja kerti inn í þau, sem að sjálfsögðu endaði með því að það sviðnaði og skemmdist, en í haust flutti mamma upp á Hraunbúðir og mér fannst vanta eitthvað sérstakt í herbergið hennar núna fyrir jólin. Ég ákvað því að hafa samband við dóttir hans Kristmanns frænda og fékk hjá honum þetta fína líkan af Landakirkju með rauðu þaki og ljósi inní og mamma er hæst ánægð með það.
Annað sem rifjaðist upp nýlega er að mamma bakaði alltaf brúntertu fyrir jólin, en ofninn var það lélegur að þegar hún var búin að setja botnana saman með þykku vanillukremi, þá skar hún endana af sem áttu það að brenna aðeins og við systkinin 3 fengum að njóta þess að fá nýbakaða brúntertu með kremi og ískalda mjólk með, þá var nú veislan. Í dag fer maður bara niður í búð og kaupir sér brúntertu með kremi, en í minningunni var þetta alltaf miklu betri hjá mömmu.
En já, ég fer daglega með hundana mína, en margir bæjarbúar verða varir við það þegar ég fer með þann stærri, enda lætur hann vel í sér heyra. En á morgun eru nákvæmlega 4 ár síðan ég fékk hann í fangið sem hvolp og um leið 4 ár síðan við horfðumst í augu í fyrsta skiptið og tengdumst. Kannski svolítið erfitt að útskýra þetta fyrir fólki sem ekki hefur átt dýr, en hann sefur þegar ég sef og vakir þegar ég vaki, verður sorgmæddur þegar ég fer út án þess að taka hann með og rosalega glaður þegar ég kem aftur heim, sérstaklega ef meira en kannski dagur er liðinn, en ég fæ það stundum á tilfinninguna að við gætum í raun og veru lært margt af dýrunum okkar sem sýna okkur skilyrðislausa ást, alveg sama hvað gengur á og kannski má á vissan hátt segja það að þau séu svona að vissu leyti spegill sálarinnar í okkur sjálfum, eða að minnsta kosti á þann hátt sem við vildum sjálf að einhverju leyti vera eða að minnsta kosti hvernig við komum fram við hvort annað.
Óska öllum landsmönnum og Eyjamönnum gleðilegra jóla.
Georg Eiður Arnason




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst