Þó flestir landsmenn séu heima með fjölskyldu sinni á aðfangadagskvöldi er það ekki raunin hjá öllum. Margir geta ekki verið heima í faðmi fjölskyldu á þessum hátíðardegi og geta ástæðurnar verið margvíslegar, meðal annars vegna vinnu, veikinda eða að þeir eigi fáa að.
Guðný Bernódusdóttir er ein þeirra sem starfar í framlínu og hefur oftar en ekki verið í vinnu yfir jólahátíðina. Á meðan flestir njóta samveru heima heldur hún og samstarfsfólk hennar áfram að sinna mikilvægum verkefnum á sjúkradeild HSU. Guðný hefur margra ára reynslu af að vinna á aðfangadagskvöldi og segir þá reynslu oftast hafa verið mjög góða.
,,Fyrstu jólin sem ég vann voru frekar erfið, en svo varð þetta auðveldara með tímanum. Hingað til hafa þessir dagar á sjúkradeildinni verið mjög hátíðlegir þrátt fyrir að maður sé að vinna, maður stillir sig bara inn á þetta. Allir mæta í sínu fínasta pússi og stemning er góð meðal fólks.” Aðspurð hvort starfsfólkið geri eitthvað sérstakt til að halda í hátíðarandann segir Guðný að á þessum dögum sé reynt að hafa rólegra og halda stressi í lágmarki þó svo að verkefnin geti verið misjöfn. ,,Við reynum að leyfa þeim sem hafa tök á að fara heim í fjölskylduboð að gera það, en það eru auðvitað ekki allir sem geta það. Yfir hátíðarnar geta líka komið upp bráð hjartamál, þar sem jólamatur og saltneysla hefur stundum áhrif,” bætir hún við.
,,Almennt séð er samt oftast minna stress á aðfangadagskvöldi og stemningin léttari. Allir koma saman að borða, bæði starfsfólk og sjúklingar sem eru inni yfir jólin, og sú samvera er mjög góð. Venjulega borðum við inni á kaffistofunni en á þessum degi sitjum við öll saman. Maturinn er færður upp á deildina og kokkurinn kemur með hann til okkar, sem gerir kvöldið hátíðlegra og öðruvísi. Í fyrra sátum við öll saman við borðið í um það bil tvo tíma og nutum jólanna í sameiningu, starfsfólk og sjúklingar og það var mjög hátíðlegt hjá okkur.
Guðný mun einnig vinna í ár á aðfangadagskvöld og segir að eðlilega þurfi alltaf einhverjir að standa vaktina á þessum tíma. ,,Auðvitað langar mig frekar að vera heima með Klöru dóttur minni á þessum tíma, en hún er sem betur fer heppin að geta verið með pabba sínum og hans fjölskyldu á jólunum þar sem skemmtilegt er fyrir hana að vera.”
Við sem erum að vinna reynum að halda í jólastemninguna með því að vera með pakkaskipti og spjalla saman. Við vitum að margir hafa það verra en við sem þurfum að vinna, þannig að við gerum okkar besta til að skapa hlýja og notalega stemningu fyrir alla.”



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst