Jóna Heiða Sigurlásdóttir er ein þeirra listamanna sem tekur þátt í Goslokahátíðinni í ár. Þetta er hennar þriðja sýning á Goslokunum, og að þessu sinni mætir hún með skemmtilega og litríka sýningu þar sem lundar, diskókúlur og partýstemning fá að njóta sín. „Þetta er samansafn af allskonar verkum eftir mig, minni verkum sem mynda stærri heild,“ segir hún. „Mig langaði að skapa fjör og partýstemningu með diskókúlum, lundahausum og öðru sem tengist Eyjunum og er nafnið er skírskotun í lundapartý frá tónlistarmanninum Dr. Victor. Annars segist Jóna Heiða almennt séð sækja mikinn innblástur úr náttúrunni, en verk hennar bera einnig merki af dýpri og dekkri áhrifum.
„Ég er mjög hrifin af náttúrunni og hef alltaf sótt innblástur þangað, en ég laðast líka að drungalegum hlutum eins og beinagrindum, blóði og öðru dökku. Það kemur ekki alltaf fram í verkunum mínum samt, en ég myndi segja að ég væri svolítið tvískiptur listamaður, annars vegar er það fjörið og partýið, hins vegar eru það þessir myrku og drungalegu hlutir.“ Verkin hennar verða til sýnis skúr við heimili hennar, að Skólavegi 15a en þar verður einnig sérstakt „nornahorn“ – lítið söluhorn með kristöllum, reykelsi og ýmsum öðrum grasalækningatengdum vörum. „Ég er að læra grasalækningar og er með alls konar tilraunastarfsemi í gangi. Það verður ýmislegt þar til sýnis og sölu líka.“ Einnig verður hún með fleira skemmtilegt til sölu eftir hana, eins og límmiða, barmmerki, lyklakippur og fleira. Jóna Heiða segist spennt fyrir sýningunni og vonast til að fólk kíki við, njóti og hafi gaman að.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst