Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfu Lauga ehf. og Í toppformi ehf. um að afturkalla eða endurupptaka ákvörðun nefndarinnar frá 12. júní 2025 um að stöðva samningsgerð vegna uppbyggingar og reksturs heilsuræktar í Vestmannaeyjum. Þetta kemur fram í ákvörðun nefndarinnar sem kveðin var upp þann 17. nóvember sl..
Í þeirri ákvörðun staðfestir kærunefndin að stöðvun samningsgerðar milli rekstraraðila og Vestmannaeyjabær skuli standa óbreytt á meðan málið sé til efnislegrar meðferðar. Nefndin hafnar jafnframt öllum rökum um að brotið hafi verið gegn andmælarétti eða rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við töku bráðabirgðaákvörðunarinnar.
Í ákvörðuninni kemur fram að stöðvun samningsgerðar sé bráðabirgðaráðstöfun sem ekki bindi endi á málið. Af þeim sökum sé hvorki lagagrundvöllur né tilefni til að endurupptaka eða afturkalla ákvörðunina á þessu stigi. Þá er áréttað að kærunefndin sé ekki bundin af bráðabirgðaákvörðun sinni þegar endanlegur úrskurður verði kveðinn upp.
Með þessu var kröfu Lauga ehf. og Í toppformi ehf. formlega hafnað í heild sinni.
Þessu tengt: Heilsuræktarútboð í vinnslu
Í kjölfar þessa hefur Vísir greint frá því að kærunefnd útboðsmála hafi síðar kveðið upp endanlegan úrskurð í málinu, þar sem niðurstaðan var sú að Vestmannaeyjabær hefði brotið gegn lögum um opinber innkaup.
Samkvæmt umfjöllun Vísis komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að bærinn hefði ekki metið virði samningsins áður en hann var boðinn út, þrátt fyrir að um væri að ræða sérleyfissamning. Af þeim sökum var ákvörðun bæjarins um val á rekstraraðila felld úr gildi og honum gert að bjóða verkefnið út að nýju.
Þá kemur fram í umfjöllun Vísis að Vestmannaeyjabær hafi jafnframt verið talinn bótaskyldur gagnvart kærendum vegna kostnaðar sem þeir urðu fyrir við þátttöku í ferlinu, auk þess sem bænum var gert að greiða málskostnað.
Einn kærenda, Leifur Geir Hafsteinsson, sagði í viðtali við Vísi að niðurstaðan jafngilti fullnaðarsigri og staðfesti að rangt hefði verið staðið að innkaupaferlinu frá upphafi.
Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur jafnframt komið fram, samkvæmt Vísi, að fyrra ferli sé nú úr sögunni og að stefnt sé að því að bjóða uppbyggingu og rekstur heilsuræktarstöðvarinnar út að nýju á næsta ári, í samræmi við gildandi lög.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst