Nú er hreinsunarstarf að hefjast af krafti í Vestmannaeyjum en ekkert öskufall hefur verið í Eyjum í um það bil sólarhring. Öskufjúk gerði Eyjamönnum lífið leitt í gær en það hafði í för með sér að hluti öskunnar fauk á haf út. Margir eru nú úti við með kústa, skóflur og garðslöngur að hreinsa nánasta umhverfi. Vestmannaeyjabær ætlar að hreinsa nýja útisvæðið við Sundlaug Vestmannaeyja í dag klukkan 14.00 og kallar eftir sjálfboðaliðum í verkið.