Karlalið ÍBV í handbolta sigraði Þór á Akureyri, í fyrsta leik 15. umferðar Olís deildar karla í dag. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og var staðan 6:6, eftir tólf mínútur. Eyjamenn náðu þó fljótt forystunni og var munurinn orðinn sex mörk, 8:14, eftir 20 mínútna leik. Þórsarar minnkuðu aftur muninn og var staðan 14:16 í hálfleik.
Eyjamenn byrjuðu seinni hálfleikinn afar vel og voru komnir með sem marka forystu, 15:21, strax í upphafi hálfleiksins. Þórsarar áttu fá svör og héldu Eyjamenn forystunni út leikinn. Eyjamenn unnu að lokum fimm marka sigur, 27:32. Eftir sigurinn eru Eyjamenn í 5. sæti með 17 stig. Þór eru í 11. sæti með 7 stig.
Dagur Arnarsson átti frábæran leik og var markahæstur í leiknum með 12 mörk. Morgan Goði Garner varði 10 skot í marki ÍBV.
Mörk ÍBV: Dagur Arnarsson 12 mörk, Daníel Þór Ingason 8, Haukur Leó Magnússon 5, Andri Erlingsson 4, Ívar Bessi Viðarsson 2, Anton Frans Sigurðsson 1.
Olís deild karla er komin í pásu vegna þátttöku Íslands á EM í handbolta í janúar. Deildin hefst aftur miðvikudaginn 4. febrúar, þá taka Eyjamenn á móti Selfoss kl. 18:00.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst