Dagmar Pálsdóttir keppti um síðustu helgi á Íslandsmótinu í fitness og keppti þá á sínu fjórða móti í módel fitness. Mótið fór fram í Hofi á Akureyri og var keppnin afar hörð og jöfn. Dagmar fór ekki á pall í þetta sinn en stóð sig enga síður ótrúlega vel.
Dagmar er 34 ára gömul og býr ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Guðnasyni og strákum sínum tveim, Kristni Frey og Halldóri Hauk hér í Eyjum, en auk þeirra á hún tvö bónusbörn þau Guðna Pál og Guðrúnu Hebu. Dagmar starfar í Grunnskóla Vestmannaeyja og stundar samhliða því líkamsrækt að kappi. Hún byrjaði í ræktinni árið 2009 og þá var ekki aftur snúið. Áhugi hennar beindist fljótt að módel fitness og stefndi hún að því að taka þátt árið 2010, en varð ólétt það ár og frestaði því þátttöku.
Það var svo árið 2014 sem hún lét til skara skríða og ákvað að taka þátt. Hún keppti aftur árið 2017 og svo 2019. Dagmar tók sér smá pásu eftir það og eignaðist yngri drenginn sinn 2021. Hún ákvað svo að snúa aftur til keppni núna 2025 og var það hennar fjórða skipti á sviði.
Undirbúningur fyrir mót sem þessi krefjast verulegs undirbúnings, aga og vinnu. Við náðum tali að Dagmar og fengum að heyra í henni hljóðið eftir mótið.
,,Undirbúningurinn fyrir mótið var mjög langur og strembinn hjá mér segir Dagmar. Maðurinn minn er sjómaður og ég mikið ein með strákana mína. Ég hefði ekki getað þetta án stuðnings frá eldri stráknum mínum sem er 14 ára. Hann hjálpaði mikið til og passaði yngri bróðir sinn ef ég þurfti að skjótast í ræktina um helgar“, segir Dagmar. Þrátt fyrir mikla undirbúningsvinnu hefur Dagmar enga að síður mjög gaman að ferlinu og segir það virkilega skemmtilegt að hafa markmið að vinna að.
Dagmar var í fjarþjálfun hjá Gunnari Stefáni Péturssyni sem hún segir að hafi verið afar mikilvægur hlekkur í undirbúningsferlinu, en hún hefur verið í þjálfun hjá honum síðan 2018 með hléum.
Aðspurð hvað sé mest krefjandi við undirbúning fyrir slík mót segir hún að það sé einna helst að ná að samræma æfingar við heimilislífið, einnig að þurfa að elda tvo rétti á kvöldin og undirbúa og skipuleggja máltíðarnar sínar.
En hvernig leið Dagmar á keppnisdaginn?
,,Mér leið bara mjög vel á keppnisdaginn, enda var ég ekki að gera þetta í fyrsta skipti. Ég fann þegar ég gekk inn á svið að adrenalínið fór alveg í botn og stressið fylgdi með. En ég minnti sjálfa mig á að njóta og hafa gaman. Þetta gerist allt svo hratt og áður en maður veit þá er bara þessi dagur búinn og við tekur næsta markmið.“
Hver eru framtíðarplön þín varðandi fitness?
,,Nú tekur bara við uppbygging og ég ætla mér að taka þátt aftur, en hvar og hvenær það verður er ég ekki viss um. Þetta er bara lífsstíll sem maður lifir og maður hættir því ekkert.“
Hvernig hafa viðbrögð fólksins í kringum þig verið varðandi þína þátttöku í fitnesss?
,,Ég lét fáa vita þátttöku minni því ég vildi ekki setja auka pressu á mig, en auðvitað fékk ég góðan stuðning frá flest öllum í kringum mig“, segir Dagmar.
Hvaða ráð myndir þú gefa öðrum stelpum sem langar að taka þátt í svona keppni?
,,Ég myndi segja ,,go for it“, en þetta er alls ekki auðvelt og ekki fyrir alla, en maður veit það ekki nema að prófa. Fyrir þær sem langar að prófa mæli ég með að gefa sér góðan tíma í ferlið því þetta er langhlaup. Þetta er ótrúlega skemmtilegt ferli og maður kynnist mikið af skemmtilegu fólki í gegnum þetta. Ég mæli með að finna góðan þjálfara sem heldur utan málin, bæði á meðan undirbúningi stendur og einnig eftir keppni segir Dagmar að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst