Skip Ísfélagsins héldu á síldveiðar nú í byrjun árs, eftir að áform um kolmunnaveiðar gengu ekki eftir vegna samningaleysis milli Íslands og Færeyja.
Að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra Ísfélagsins, var upphaflega stefnt á kolmunnaveiðar strax eftir áramót. Þegar ljóst varð að samningar næðust ekki við færeysk yfirvöld var ákveðið að nýta þann kvóta sem eftir var af íslenskri síld.
„Planið okkar var að fara á kolmunnaveiðar eftir áramótin, en þar sem samningar náðust ekki milli Íslands og Færeyja þá var ekkert annað að gera en að sækja það sem við áttum eftir af íslensku síldinni,“ segir Eyþór í samtali við Eyjafréttir.
Að hans sögn átti Ísfélagið um 2.000 tonn eftir af síldarkvótanum. Heimaey VE er væntanleg til Vestmannaeyja í kvöld með rúmlega 1.100 tonn, en Sigurður er enn á miðunum og er gert ráð fyrir að hann ljúki veiðum á morgun, þriðjudag.
Með því klárast síldveiðar félagsins að sinni, á meðan beðið er eftir niðurstöðu í kolmunnamálum.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst