Hinn ungi og efnilegi knattspyrnumaður Róbert Elís Hlynsson hefur gengið til liðs við ÍBV. Róbert verður á lánssamningi frá KR út keppnistímabilið 2026. Hann er 18 ára gamall miðjumaður sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með KR á undirbúningstímabilinu.
Róbert er fjölhæfur leikmaður sem leikur aðallega á miðsvæðinu en getur einnig leyst framar á vellinum. Hann hefur verið fastagestur í yngri landsliðum Íslands, allt frá U16 til U19, þar sem hann hefur leikið 18 landsleiki og skorað tvö mörk.
Hann er uppalinn hjá ÍR en gekk til liðs við KR eftir afar gott tímabil með uppeldisfélaginu árið 2024. Í tilkynningu á vefsíðu félagsins fagnar knattspyrnuráð ÍBV komu Róberts og bindur miklar vonir við að þessi efnilegi leikmaður muni styrkja liðið á komandi leiktíð.