Kristrún Frostadóttir, þingmaður og formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, hefur boðað til fundar í dag í Vigtinni bakhúsi. Fundurinn er opinn öllum og hefst kl. 17:30.
„Ég ætlaði að koma við í Eyjum í síðustu fundaferð en þá kom babb í bátinn. Nú er ég að fara annan hring um landið og næ loksins að taka stöðuna á Eyjamönnum. Og í þetta sinn sem frambjóðandi til formanns í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands, hvorki meira né minna,“ segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður sem býður sig fram sem til formanns Samfylkingarinnar.
Fundirnir eru opnir öllum og fyrirkomulagið verður afslappað. Kristrún flytur stutta framsögu og leitast síðan eftir samtali og ólíkum sjónarmiðum:
„Það kemur ekkert í staðinn fyrir beint samtal við fólk. Ég vil eiga opið samtal og svara spurningum. Og ég vil segja betur frá þeim hugmyndum sem ég setti fram í Iðnó um daginn þegar ég tilkynnti framboðið. Þær hafa greinilega vakið athygli víða. Ég vil að við jafnaðarmenn förum aftur í kjarnann og náum virkari tengingu við venjulegt fólk um land allt,“ segir Kristrún og bætir við að lokum:
„Ég hlakka til að eiga samtal við Eyjamenn og að vona bara að ég sjái sem flesta í Vigtinni bakhúsi kl. 17:30 í dag, líka fólk sem er ekkert endilega alltaf á sömu línu og ég í pólitík! Það er bara hollt og þetta nýtist allt í þingstörfunum.“
Fréttatilkynning um fundaferð Kristrúnar um landið undir yfirskriftinni; Samræða um framtíðina. Alls 37 fundir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst