Óhætt er að segja að það hafi komið flatt upp á marga kröfugerð óbyggðanefndar um að gera hluta Heimaeyjar auk úteyja og skerja að þjóðlendu.
Eyjar.net leitaði álits Jóhanns Péturssonar, hæstaréttarlögmanns á málinu. Fyrst lá beinast við að spyrja um hvað málið snúist?
Þjóðlendumálin snúast almennt um það að íslenska ríkið er eigandi að öllu landi á Íslandi og greinilega Vestmannaeyjum sem ekki er háð beinum eignarrétti annarra. Þetta kemur fram í Þjóðlendulögunum. Í þessum málum almennt þá hefur íslenska ríkið gert kröfur, aðallega á hálendi en líka á lálendi og síðan hafa bændur, sveitarfélög og einstaklingar þurft að sanna að þeir eigi beinan eignarrétt að því landi sem málið snýst um í hvert sinn.
En seldi íslenska ríkið ekki Vestmannaeyjakaupstað allt sitt land árið 1960?
Jú, það var það sem gerðist. Kröfugerð íslenska ríkisins nefnir reyndar í engu gildi þess afsals og hvers vegna Ríkið gerir þessar kröfur miðað við afsalið. Væntanlega vill Ríkið halda því fram að íslenska ríkið hafi ekki átt þetta land, ákveðinn hluta Heimaeyjar sem og úteyjar og sker og þess vegna eigi Vestmannaeyjabær það ekki í dag. Þannig að allt þetta land sé í raun engum beinum eignarrétti háð og hafi aldrei verið það. Þar af leiðandi eigi íslenska ríkið þetta land sem Þjóðlendu.
Efni frumvarpsins breyttist í meðförum þingsins
Og stenst það?
Það tel ég vera hæpið. Það má t.d. benda á það að þegar að íslenska ríkið selur Vestmannaeyjakaupstað allt sitt land árið 1960 þá eru sett sérstök lög af því tilefni. Upphaflega þá kom fram í frumvarpinu að aðeins væri verið að selja land á Heimaey. En í meðförum þingsins er sérstaklega vísað til þess að selja eigi allt land í Vestmannaeyjum þ.m.t. úteyjar. Þess vegna er efni frumvarpsins breytt í meðförum þingsins og lögin kveða að lokum á upp að selja Vestmannaeyjakaupstað allt land í Vestmannaeyjum sem var í eigu ríkisins. Þarna taldi ríkið sig greinilega eiga m.a. úteyjarnar. Það virðist nú eitthvað breytt skv. kröfulýsingu ríkisins.
Ræðst oft á grundvelli skriflegra heimilda
Og hvert er þá næsta skref?
Ríkið gæti auðvitað séð að sér og bakkað með kröfulýsingu sína. Breytt henni t.d. fallið frá kröfu í Heimaey og úteyjar. Surtsey gæti verið sérmál enda kom hún til eftir gerð afsalsins.
En síðan gæti málið var óbreytt áfram og þá þarf að standa að heimildasöfnun því málið gæti auðveldlega farið að snúast um beinan eignarrétt á Vestmannaeyjum í heild sinni frá þeim tíma þegar að konungur átti Vestmannaeyjar og þar á undan Skálholtsbiskup. Sýna þarf fram á að beinn eignarréttur hafi stofnast um Vestmannaeyjar í heild sinni, Heimaey, úteyjar og líklega sker. Þá þarf að skoða afsal á þessu landi frá konungi til ríkisins 1874 og hvernig staðið var að því. Skoða þarf skjöl langt aftur í tímann.
Og liggja þessi skjöl fyrir?
Óbyggðanefnd á að vinna að heimildasöfnun en þegar að kröfulýsing íslenska ríkisins er lesin þá er lítið sem ekkert farið í þessi atriði. Aðallega byggt á því að hér á Heimaey hafi bara verið jarðir og þessar jarðir hafi ekki átt beinan eignarrétt í fjöllunum eða úteyjunum heldur óbeinan eignarrétt s.s. beitarrétt, eggjatöku, fuglaveiði o.sfrv. Þess vegna dregur íslenska ríkið þá ályktun að þetta land hafi aldrei verið beinum eignarrétti háð. Þetta þarf auðvitað að skoðast sérstaklega og safna heimildum en síðan er málið að mínu mati flóknara eins og ég kom að áðan.
Skoða þarf það vel aftur í tímann og safna heimildum. Svona mál vinnast oft og tapast á grundvelli skriflegra heimilda. Þannig hafa t.d. upplýsingar um landnám skipt máli um að beinn eignarréttur hafi stofnast. Það er þó ólíklegt að það eigi við í þessu tilviki en eignarhald konungs í margar aldir og afsal á landinu til íslenska ríkisins gæti skipt miklu máli þessu sambandi þ.e. ef málið fer alla þessa leið. Þá geta önnur atriði eins og hefð og notkun landsins skipt máli vegna stofnunar beinna eignarréttar. Þinglýsing, skráning og ýmsir þættir koma einnig inn í matið.
Vestmannaeyjabær þinglesinn eigandi úteyjanna
Og hvenær má vænta niðurstöðu?
Þessi mál taka langan tíma. Ef ekkert breytist í kröfugerð ríkisins þá kemur kannski niðurstaða hjá óbyggðanefnd á næsta ári og e.t.v. síðar. Heimildasöfnun getur tekið talsverðan tíma. Þá taka dómstólar við í einhver ár. Ekki hægt að segja til um það hvenær svona máli lýkur, kannski eftir 3-4 ár. Kannski skemur eða lengur, erfitt að segja.
En það verður að segjast eins og er að kröfugerðin kom á óvart ekki síst þegar að lögin frá 1960 eru skoðuð en þar kemur skýrt fram í meðförum Alþingis að þar er talið að íslenska ríkið eigi m.a. úteyjar. Þannig er t.d. Vestmannaeyjabær þinglesinn eigandi úteyjanna skv. þessu afsali. Það verður bara að taka þetta skref fyrir skref og vinna þessa vinnu þannig, segir Jóhann Pétursson, hæstaréttarlögmaður.
https://eyjar.net/hver-er-eiginlega-tilgangurinn-med-thessu/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst