Lagning tveggja nýrra rafstrengja frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja er hafin. Verkið er unnið af norska fyrirtækinu Seaworks, sem sérhæfir sig í lagningu neðansjávarrafstrengja. Við það eykst flutningsgeta um 120 MVA – verklok áætluð um miðjan júlí.
Þetta kemur fram á heimasíðu Landsnets og er lagningaskipið Aura er komið upp undir sand og gera má ráð fyrir að lagning hefjist á næstu klukkustundum. Um tvo strengi er að ræða, VM 4 og VM 5 og er gert ráð fyrir að lagningu strengjanna í sjó ljúki um miðjan júlí og að verkefninu verði formlega lokið um mánaðamót ágúst og september.
„Rafstrengirnir, sem nú eru lagðir í sjó, munu auka flutningsgetu til Eyja umtalsvert – eða um allt að 120 MVA þegar þeir koma í rekstur. Tilgangurinn er að bæta afhendingaröryggi raforku til Vestmannaeyja og tryggja örugga orkutengingu til framtíðar. Núverandi strengur hefur verið í notkun í 12 ár og hefur bilað tvisvar, þó hann hafi starfað að mestu gallalaust,“ segir á heimasíðu Landsnets.
Landtaka án árekstra við aðrar lagnir
Einnig kemur fram að við landtöku rafstrengjanna þarf ekki að gera sérstakar ráðstafanir vegna veitulagna þar sem engar aðrar lagnir eru á því svæði. „Hins vegar eru ávallt gerðar ráðstafanir þegar strengir þvera aðrar lagnir – hvort sem þær eru í notkun, laskaðar eða af öðrum toga – til að vernda bæði okkar eigin eignir og annarra aðila.“
Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir að allt hafi gengið eftir áætlun í nótt og í morgun bæði á sjó og á sandi. Veðrið er hagstætt og ef allt gengur að óskum mun lagning fyrri strengsins, Vestmannaeyjastrengs 4, taka um sólarhring. Þegar því er lokið verður farið í að leggja seinni strenginn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst