Kvenfélagið Líkn afhenti heilsugæslu HSU í Vestmannaeyjum heyrnamælingartæki og blöðruskanna á dögunum. Iðunn Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur, veitti þeim viðtöku fyrir hönd deildarinnar. Um er að ræða tæki, að andvirði 1.690.381 króna. En samanlagt virði gjafa sem Kvenfélagið Líkn hefur tekið þátt í að gefa til HSU í Vestmannaeyjum á þessu ári er 4.281.981- og hefur félagið einnig veitt 2.000.000- í aðra samfélags styrki.
Haft er eftir Maríu Sigurbjörnsdóttur, formanni Kvenfélagsins Líknar, að félagið vinni stöðugt að því að efla þjónustu í heimabyggð fyrir samfélagið.
Frá Líknarkaffinu.
Kvenfélagið Líkn í Vestmannaeyjum hélt stærstu fjáröflun ársins Líknarkaffið 30. nóvember, en við fórum þá leið forselja glæsilegt kaffihlaðborð til fyrirtækja, sem geta boðið upp á það í kaffitíma starfsfólks og voru viðtökur fyrirtækja mjög góðar. Einnig var almenningi boðið í kaffihlaðborð í sal kvenfélagsins sama dag, en þar fór einnig fram jólabasar Líknar. Reikna má með að um 33% Eyjamanna hafi fengið bakkelsi frá Kvenfélaginu Líkn þann daginn. Margar konur komu að bakstri og vinnu við undirbúning og afhendingu, en Kvenfélagið Líkn fékk aðstöðu í eldhúsinu í Höllinni til að útbúa bakkelsið og viljum við þakka Einari Birni Árnasyni kærlega fyrir aðstöðuna. Við þökkum Eyjólfi Guðjónssyni fyrir að sjá um kökurekkan og Vigtinni bakarí fyrir kleinur. Að lokum er vert að þakka fyrir framlag Heildverslunar Karls Kristmanns, því án þeirra væri þetta eflaust ómögulegt, en þau styrktu okkur ríflega með aðföngum auk þess sem þeir sáu um flutning og geymslu á bakkelsinu.
Við bjóðum konur sem vilja láta gott af sér leiða og njóta skemmtilegs félagsstarfs, velkomnar í Kvenfélagið Líkn, en félagsstarfið felst í sex fundum á ári og fjáröflunum. Næsti fundur félagsins fer fram mánudaginn 5. febrúrar kl 19:00 að Faxastíg 35.
Við óskum bæjarbúum gleðilegra jóla og nýárs og þökkum fyrir stuðninginn á árinu.
Fyrir hönd Kvenfélagsins Líknar, stjórnin.
Aðalmynd af afhendingu tækja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst