Íbúum um allt land býðst að njóta listagjafar helgina 19.-20. desember nk. Listafólk í fremstu röð mun þá sækja fólk heim og flytja stutta listgjörninga, tónlist, ljóðlist, sirkusatriði eða dans sem gefendur geta pantað fyrir ástvini í gegnum vefinn. Einnig verður boðið upp á rafrænar listagjafir til þeirra sem geta ekki tekið á móti gjöf í eigin persónu vegna sóttvarnatilmæla eða staðsetningar.
„Fyrir marga er það ómissandi hluti af undirbúningi jólanna að njóta fjölbreyttrar menningar. Þúsundir fara á jólatónleika, upplestra eða jólaleiksýningar. Það var mér því hjartans mál að leita leiða til að miðla menningu í þessum óvenjulegu aðstæðum sem nú eru uppi. Samtakamáttur okkar Íslendinga, sköpunargleði og jólahugur kristallast í Listagjöfinni, ég vona að sem flestir njóti hennar og leyfi sér að gleðjast og gleðja aðra!“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
„Við hjá Listahátíð erum stolt og glöð yfir því að geta nú boðið upp á þetta þakkláta verkefni um land allt. Listagjöf veitir almenningi kærkomið tækifæri til þess að gleðja ástvini á einstaklega krefjandi tímum og skapar hins vegar dýrmæt atvinnutækifæri fyrir það listafólk sem hefur tekið hvað mest högg á sig í faraldrinum,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.
Opnað verður fyrir gefendur að panta Listagjafir á hádegi mánudaginn 14. desember. Þær verður hægt að panta gegnum vefslóðina listagjof.listahatid.is en þar verður einnig að finna allar nánari upplýsingar.
Á næstu dögum mun bókunarsíðan gigg.is einnig fara í loftið. Hún verður vettvangur til frambúðar þar sem listamenn sem taka að sér smærri uppákomur geta komið sér á framfæri og fólk keypt þjónustu þeirra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst