Sextánda Löður stöðin var að opna, en sú er í Vestmannaeyjum. Stöðin er snertilaus og tekur einungis 7-8 mínútur að fara þar í gegn með bílinn.
Að sögn Harðar Inga Þórbjörnssonar – sem unnið hefur að opnun stöðvarinnar – er mikil ánægja innan fyrirtækisins með að vera búin að opna stöðina í Eyjum.
,,Við erum að finna taktinn, leysa úr nokkrum tæknilegum áskorunum með greiðslukerfið en stöðin virkar vel og Eyjamenn eru að keyra út á hreinum bílum, sem skiptir okkur öllu máli.“ sagði hann í samtali við Eyjar.net fyrir helgi.
Löður hefur verið að færa út kvíarnar en fyrirtækið starfrækir 15 aðrar stöðvar á landinu: Ein á Akureyri, ein í Reykjanesbæ og 13 á höfuðborgarsvæðinu. Stöðin í Eyjum þarf ekki fasta viðveru starfsmanns.
Einfalt og fljótlegt
En hvernig ber fólk sig af til að komast í stöðina?
Stöðin er staðsett á Faxastíg 36 við hliðina á Tvistinum. Biggi og hans fólk í Tvistinum hefur verið frábært í að aðstoða okkur þessa fyrstu daga. Við bjóðum upp á þrjár greiðslu lausnir.
Í gegnum greiðslustaur þar sem hægt er að greiða með kortum eða símum. Löður er með snjallforrit þar sem hægt er að greiða fyrir þvott en einnig erum við að bjóða upp á áskriftarleið í samvinnu við Parka. Greitt er mánaðargjald, 6.900 kr og innifalið er ótakmarkaður fjöldi þvotta. Þegar keyrt er að stöðinni les myndavél bílnúmer og ef áskrift er virk hleypir stöðin þér inn og þvær bílinn. Einfalt og fljótlegt.
Finnur þú fyrir áhuga heimamanna á stöðinni?
Þetta eru búnir að vera frábærir tveir dagar hér í eyjunni fögru. Ég hef fundið fyrir miklum áhuga heimamanna og hafa þeir margir kíkt við prófað stöðina og skellt sér í áskrift. Allir sem ég ef talað við eru jákvæðir, spenntir og hafa sýnt örlitlum byrjunarörðugleikum skilning. Við eigum eftir að klára merkingar á húsinu og ég hlakka til að koma aftur sem allra fyrst, segir Hörður Ingi Þórbjörnsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst