Sjálfstæðisflokkurinn efnir til prófkjörs nk. laugardag til að velja fulltrúa á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Öllum kjósendum, sem hyggjast styðja D-listann í komandi kosningum, er þar boðið að velja fulltrúa sem skipa munu framboðslista Sjálfstæðisflokksins í vor. Valið er því alfarið í höndum kjósenda sem hlýtur að vera gagnsæjasta og lýðræðislegasta aðferðin sem í boði er við að stilla fólki upp á framboðslista. Það er því á engann hátt orðum aukið að segja að þarna sé á ferð sannkölluð lýðræðisveisla.
Sumir kalla eftir því að í sveitarstjórnarkosningum eigi að kjósa fólk en ekki flokka. Í prófkjöri er svo sannarlega verið að kjósa fólk. Prófkjör er ekkert annað en persónukjör þar sem kjósendur fá að velja það fólk sem það síðan vill styðja til setu í bæjarstjórn í komandi kosningum
Kjósendur undir 48 ára aldri hafa aldrei áður fengið að velja!
Það eru liðin 32 ár frá því Sjálfstæðisflokkurinn í Eyjum efndi síðast til prófkjörs, til að velja fulltrúa sína á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar. Stór hluti kjósenda í Eyjum hefur því aldrei haft tækifæri til að taka þátt í að velja fulltrúa sína á þennan hátt, því enginn sem er undir 48 ára aldri í dag hefur fengið tækifæri til slíks áður.
Ég held að ég muni það nokkuð rétt að á þessum 32 árum hefur ekkert annað framboð í Eyjum efnt til opins prófkjörs, þar sem kjósendum hefur verið gefið tækifæri á að velja sína fulltrúa á framboðslista. Það er því fagnaðarefni að Sjálfstæðisflokkurinn gefi kjósendum sínum í Eyjum nú tækifæri til að taka þátt í því að velja þá fulltrúa sem það treystir best til að stjórna bæjarfélaginu næstu 4 árin.
Einungis Sjálfstæðisflokkurinn treystir kjósendum sínum
Sjálfstæðisflokkurinn er eina framboðið í Eyjum sem ætlar að fela kjósendum sínum það vald að stilla upp framboðslistanum fyrir komandi kosningar. Hjá öðrum framboðum verður það „flokkseigendafélagið“ eða „valdaelítan“ sem mun líklega sjá um þá framkvæmd og það má því búast við að valið á þeim framboðslistum fari fram í „reykfylltum bakherbergjum“ eins og einhverjir myndu hugsanlega lýsa þeirri aðferðarfræði við val á frambjóðendum.
Það er því morgunljóst að Sjálfstæðisflokkurinn, einn framboða í Eyjum, ætlar að treysta kjósendum sínum til að velja fólk á framboðslistann. Önnur framboð sýna kjósendum sínum ekki það traust.
Sumir gengu til liðs við nýtt framboð vegna óánægju með að ekki var viðhaft prófkjör
Það urðu hörð átök í Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar, vegna ágreininings um hvaða leið skyldi farin við að velja frambjóðendur á lista, og djúp óánægja var með að ekki var efnt til prófkjörs við það val. Svo megn var óánægjan að dyggir stuðningsmenn flokksins sáu sér ekki fært að styðja flokkinn í bæjarstjórnarkosningunum og gengu til liðs við nýtt framboð, sem efnt var til vegna óánægju með að Sjálfstæðisflokkurinn efndi ekki til prófkjörs.
Þessi staðreynd hefur án efa haft áhrif á þá ákvörðun Sjálfstæðisflokksins nú að efna til prófkjörs og setja uppstillinguna í hendur kjósenda. Slíkt hlýtur að vera skýrt merki um að hlustað hafi verið á vilja kjósenda.
Sannir stuðningsmenn prófkjörs hljóta nú að snúa til baka
Þeir kjósendur sem ekki gátu stutt Sjálfstæðisflokkinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum, vegna þess að ekki var efnt til prófkjörs, hljóta því að fagna komandi prófkjöri og að fá þannig tækifæri til að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á ný. Taka þátt í að velja frambjóðendur á framboðslistann og fylgja því síðan eftir með stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum.
Ég fagna því alltaf þegar fólk er sjálfu sér samkvæmt og fylgir skoðun sinni og sannfæringu og því hljóta sannir stuðningsmenn prófkjörs, sem ósáttir voru síðast, að snúa nú til baka til Sjálfstæðisflokksins. Taka þátt í prófkjöri og styðja svo þann lista sem út úr þeirri kosningu kemur. Ekki gefst þeim færi á að velja sína frambjóðendur á opinn, gagnsæjann og lýðræðislegann hátt, með prófkjöri, hjá öðrum framboðum í Eyjum. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn býður nú upp á slíka lýðræðisveislu.
Kjósendur hafa úr breiðum hópi að velja
Fimmtán frambjóðendur hafa gefið kost á sér í prófkjörinu, sem fram fer á laugardaginn. Fólk á breiðu aldursbili með mismunandi reynslu. Átta konur og sjö karlar. Flott fólk sem mun skipa framboðslista Sjálfstæðisflokksins í vor. Framboðslista sem valinn verður af þeim kjósendum sem ætla sér að styðja Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum.
Tilgangurinn með prófkjöri er fyrst og fremst sá að láta valdið í hendur þeirra kjósenda, sem hyggjast styðja framboðið, og gefa þeim þannig lýðræðislegt val um það hvernig listinn verður skipaður. Það er mikill misskilningur ef það hvarflar að einhverjum að hugmyndin með prófkjöri sé sú að þeir sem ætla að styðja önnur framboð í kosningum vorsins blandi sér í það val.
Þátttakan mun gefa vísbendingu um niðurstöðu komandi kosninga
Það verður mjög forvitnilegt að sjá hver þátttakan í prófkjörinu verður því að fjöldi þeirra sem tekur þátt mun að öllum líkindum gefa skýra vísbendingu um hvert hugsanlegt lágmarks fylgi Sjálfstæðisflokksins verður í kosningunum í vor. Lágmarks fylgi segi ég því að ég reikna amk með því að þeir sem leggja leið sína í Ásgarð á laugardag, til að taka þátt í prófkjörinu, séu búnir að ákveða að styðja D-listann í kosningunum og væntanlega eiga svo fleiri eftir að bætast í þann hóp á næstu vikum.
Grímur Gíslason
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst