Á hverjum degi fer ég afar glöð í vinnuna mína því að mínu mati er ég svo heppin að vinna skemmtilegustu og yndislegustu vinnu í heimi. Daglega fæ ég knús, kossa, klapp á bakið, hor í öxlina, tár í peysuna, ég reima skó, renni upp úlpum, klæði í vettlinga og fæ bros í staðin sem lýsa upp veröldina mína. Auk þess fæ ég daglega endalaust þakklæti fyrir að vera til. Í vinnunni minni fæ ég að vera eins og ég er og fæ aldrei athugasemdir um að ég gæti nú verið einhvern veginn öðruvísi. Nei á hverjum degi fæ ég ást og umhyggju frá litlu gullmolunum mínum sem finnst ég frábær eins og ég er og mér finnst þau öll svo frábær eins og þau eru.