Það lá vel á bæjarbúum á setningu Goslokahátíðar í dag og var vel sótt í Ráðhúslund þó að sólin hafi látið sig vanta.
„Ég hugsa alltaf til þessarar hátíðar með þakklæti. Þakklæti til þess hvernig hlutirnar æxluðust í þessu mikla áfalli, og þakklæti til þeirra sem komu hingað eftir gos og byggðu upp þessa yndislegu eyju,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, sem setti hátíðina.
Íris hvatti bæjarbúa og gesti til þess að taka þátt í dagskránni næstu daga og kom á framfæri þakklæti til goslokanefndar sem unnið hefur hörðum höndum að skipulagningu og undirbúningi hátíðarinnar.
Börnin á leikskólanum Sóla fóru með nokkur lög og þar á eftir söng eyjamærin Þuríður Andrea Óttarsdóttir, sem kemur undir listamannsnafninu Þura, fyrir gesti og spilaði á gítar. Með henni til liðs var Arnar Júlíusson.
Þungarokkshljómsveitin Þögn steig næst á stokk, en hana skipa María Fönn Frostadóttir söngkona, Aðalbjörg Andrea Brynjarsdóttir á trommur, Júlí Bjart Sigurjónsdóttir og Elín Sif Hlynsdóttir á gítar, og þær Arna Gunnlaugsdóttir og Sarah Elía Ó. Tórshamar á bassa.
Óskar Pétur Friðriksson var með myndavélina á lofti og smellti af eftirfarandi myndum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst