Fréttapýramídar Eyjafrétta voru afhentir nýverið við hátíðlega athöfn. Með viðurkenningunum heiðra Eyjafréttir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í Vestmannaeyjum sem hafa lagt samfélaginu mikilvægt og eftirtektarvert lið á sínu sviði. Laxey var valið fyrirtæki ársins.
Á örfáum árum hefur Laxey farið frá hugmynd að fullburða rekstri. Samstarf Daða Pálssonar og Hallgríms Steinssonar, sem hófst með óformlegu spjalli, byggði frá fyrstu stundu á skýrri framtíðarsýn, tæknilegri þekkingu og trausti. Hugmyndin kviknaði árið 2019, félagið var stofnað 2021 og framkvæmdir hófust 2022. Í dag er fyrsti áfangi í fullum rekstri, annar í byggingu og framleiðslan komin af stað með miklum glæsibrag. Um 98,5% framleiðslunnar fellur í hæsta gæðaflokk.
Verkefnið er það stærsta sem ráðist hefur verið í í Vestmannaeyjum, með áætlaða heildarframleiðslu upp á 42.000 tonn á ári og fjárfestingu sem nemur um 100 milljörðum króna. Starfsmönnum hefur fjölgað úr 19 í 96 á tveimur árum og uppbyggingin hefur skapað bæði störf og ný tækifæri í samfélaginu.
Bakhjarl verkefnisins er fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar, fyrrverandi útgerðarmanns og skipstjóra, og markmiðin eru skýr: að efla Vestmannaeyjar og skapa ný störf með öflugu og metnaðarfullu fólki. Eigendahópurinn endurspeglar þessa blöndu staðfestu og alþjóðlegrar reynslu. Fjölskylda Sigurjóns á um 38%, alþjóðlegir fjárfestar 22%, íslenskir lífeyrissjóðir um 20% og aðrir einkafjárfestar 20%.
Saga Laxeyjar sýnir hvað er hægt að gera þegar hugrekki, þekking og samvinna fara saman – og framtíðin er rétt að byrja.