Meistaraprófsmaður í fjármálum gerðist húsasmiður

„Mál skipuðust þannig að ég söðlaði um á vinnumarkaði og það oftar en einu sinni. Ég kann afskaplega vel við að starfa utan dyra, fá hreint loft í lungun og hreyfingu fyrir kroppinn. Hjá Hafnareyri er gott að vera í góðum félagsskap og nóg við að vera.“

Hjálmar Jónsson, nemi í húsasmíði og starfsmaður Hafnareyrar, gaf sér tæplega tíma líta upp þar sem hann kepptist ásamt félögum sínum við að skipta um klæðningu utanhúss á eldri hluta Kleifarfrosts, frystigeymslu Vinnslustöðvarinnar á Eiði.

Já, það er víst ekki of sterkt að orði kveðið að talað er um að kappinn sá hafi söðlað um starfsferli sínum!

Hjálmar er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur. Hann fór suður til framhaldsnáms en flutti á heimaslóðir mörgum árum síðar og birtist þá í allt öðrum hlutverkum en upphaflega var stofnað til.

Endurnýjun húss varð örlagavaldur

„Ég flutti til Reykjavíkur 23 ára gamall til að læra viðskiptafræði í Háskóla Íslands, útskrifaðist í greininni og vann eftir það hjá Kaupþingi í átta ár að undanskildu einu ári þegar ég dvaldi í Skotlandi og lauk meistaraprófi í fjármálum.

Að því búnu vann ég um hríð við endurskoðun í Arion banka í Reykjavík en ákvað þá að venda kvæði mínu í kross og gerast framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV heima í Vestmannaeyjum.“

Hjálmar starfaði hjá ÍBV í um þrjú ár en tók jafnframt í gegn gamalt hús sem hann keypti hér í Eyjum og naut við það aðstoðar og leiðsagnar föður síns sem er húsasmiður. Endurnýjun hússins reyndist örlagavaldur.

Hjálmar og Marsi samferða frá Eykt til Hafnareyrar

„Neisti kviknaði þarna því ég fann fljótt að smíðar áttu vel við mig. Þegar verktakafyrirtækið Eykt auglýsti eftir starfsmönnum í verkefni fyrir Vinnslustöðina sótti ég um og fékk vinnu sem átti að vara í sex mánuði en reyndust verða nær þrjú ár. Ég var eini heimamaðurinn í hópnum og þar var líka Marsi, Pólverji sem bjó í Eyjum og býr enn. Eyktarmenn unnu í tíu daga í beit og tóku sér svo fjögurra daga frí. Við Marsi vildum ekki sitja aðgerðarlausir hér alla þessa frídaga og svo fór að okkur var trúað fyrir verkum til að fylla í eyðurnar með tilheyrandi ábyrgð.

Svo fór að við Marsi fórum að vinna sjálfstætt fyrst eftir að verkefnum Eyktar lauk í Eyjum snemma árs 2019 og starfsmenn fyrirtækisins hurfu á braut. Eitt leiddi af öðru og við gerðumst fljótlega starfsmenn Hafnareyrar, báðir tveir, og ég var þá orðinn nemi í húsasmíði.“

Félagarnir hjá Hafnareyri sem klæddu Kleifarfrost að utan. Frá vinstri: Ágúst Ingi Jónsson, Marsin, Hjálmar Jónsson og Egill Arngrímsson.

Pyþagórasarreglan reyndist aldeilis ekki fánýt

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum auglýsti smíðanám og Hjálmari fannst liggja beint við að skrá sig þar. Bóknámshlutinn var honum líka auðveldur eftir að hafa lokið stúdentsprófi og útskrifast sem viðskiptafræðingur og fjármálameistari úr háskólum.

Fyrsta húsasmíðanámskeiðið var í Eyjum en eftir það tók við fjarnám í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

„Þetta gengur ágætlega, enda er ég einn í heimili, laus og liðugur og hef ekki annað við tímann að gera en að vinna og læra! Viðskiptafræði og fjármálafræði nýtast mér kannski ekki beinlínis í húsasmíði en allt nám, reynsla og þekking gagnast yfirleitt fólki á einhvern hátt í lífinu.

Fyrir margt löngu lærði ég til dæmis Pyþagórasarregluna í rúmfræði sem fjallar um tengsl milli lengdar hliða í rétthyrndum þríhyrningi. Ég man vel að ég hugsaði þá hve fánýtt það nú væri að læra forngrískar reiknikúnstir, þetta myndi ég aldrei nota.

Viti menn, þegar við pabbi vorum að gera upp húsið mitt forðum kom sér vel að geta gripið til reglu Pyþagórasar. Hún kom sér vel eftir allt saman.“

Nýjustu fréttir

Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.