Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra skrifar áhugaverða grein á heimasíðu sína í dag. Þar gerir hann að umtalsefni kennsluaðferðina Kveikjum neistann og árangurinn af verkefninu hjá grunnskólanum í Eyjum. Pistillinn má lesa í heild sinni hér að neðan.
Árangur eða árangursleysi í skólum ræðst ekki af öðru en aðferðunum sem beitt er við kennslu. Aðferðirnar verða að taka mið af nemendahópnum en markmiðið á ávallt að vera það sama: að ná árangri.
Nú eru fimm ár liðin frá því að Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík, kynnti hugmyndina Kveikjum neistann fyrir Einari Gunnarssyni, skólastjóra Barnaskólans í Vestmannaeyjum og Önnu Rós Hallgrímsdóttur, skólastjóra Hamarsskóla, í Eyjum.
Verkefnið snýst um að efla grunnfærni í stærðfræði, náttúrufræði og lesskilningi. Þar er stuðst við niðurstöður vísindalegra rannsókna Hermundar og samstarfsfólks hans.
Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem kom út fimmtudaginn 28. ágúst fjallar Ómar Garðarsson ritstjóri um verkefnið. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, skólastjórarnir og þrír stjórnmálamenn, Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra, Jens Pétur Zimsen alþingismaður og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, lýsa ágæti þess.
Fram kemur að menntamálaráðherra hafi skipað spretthóp undir formennsku Eyjamannsins Tryggva Hjaltasonar til að meta stöðu tilraunaverkefnisins, Kveikjum neistann, „árangur þess og tækifæri, og koma með tillögur að möguleikum í þróun verkefnisins í þágu barna hér á landi,“ eins og ráðherrann orðar það í Eyjafréttum.
Verkefnið hefur verið unnið og þróað í náinni samvinnu við Hermund og við útfærslu og lausnir hefur verið tekið mið af reynslu í skólunum og vísindalegum rannsóknum. Unnt er að fylgjast með getu og námsárangri hvers nemanda með mælingum og markvissri eftirfylgni. Allir hafi auga á þessu, kennarar, nemendur og foreldrar.
Af því sem segir í Eyjafréttum er ljóst að þetta verkefni hefur skilað miklum og góðum árangri og mælist vel fyrir hjá öllum sem að því koma.
Sýnir árangursmat í Eyjum til dæmis allt annað um lestrarfærni og framfarir í því efni en birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag (29. ágúst) þar sem fram kemur að mjög hafi hallað undan fæti í lestrarfærni nemenda í 2. bekk Fellaskóla í Reykjavík þar sem aðeins 22% nemenda í árganginum búi yfir þeirri færni sem samsvari aldri þeirra – 78% í 2. bekk Fellaskóla náðu ekki fullnægjandi lestrarfærni.
Í Hamarsskóla í Vestmannaeyjum var þessu alveg öfugt farið í 2. bekk vorið 2025, þá var lesskilningur barna þar fullnægjandi hjá 78,2% þeirra.
Árangur eða árangursleysi í skólum ræðst ekki af öðru en aðferðunum sem beitt er við kennslu. Aðferðirnar verða að taka mið af nemendahópnum en markmiðið á ávallt að vera það sama: að ná árangri. Vitneskjan um hvort það tekst fæst ekki með öðru en mælingum og eftirfylgni. Til að tryggja rétta eftirfylgni er nauðsynlegt að miðla upplýsingum til þeirra sem verða að koma að henni til að hún hafi tilgang. Þess vegna ber að miðla upplýsingum opinberlega.
Frá árinu 2018 hefur markvisst verið grafið undan þessum þáttum við framkvæmd grunnskólastarfs hér. Það sætir ekki lengur neinu mati af hálfu yfirvalda – það veit ekki einu sinni neinn fjölda raunverulegra skóladaga.
Í stað aðgerða eru birtar innantómar aðgerðaáætlanir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst