Það var heldur betur líf og fjör í Höfðavík í gær þegar Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari átti þar leið um. Svo virðist sem síldartorfa hafi synt inn í víkina þannig að bæði fuglar og sjávardýr nýttu tækifærið og fengu sér gott í gogginn, ef svo mætti að orði komast. Þarna var fjöldinn allur af súlum að stinga sér sem er mikið sjónarspil og auk þess hnúfubakar og háhyrningar.