Minnihlutinn varar við þrengingum – meirihlutinn segir reksturinn traustan
Bæjarstjórn Vestmannaeyja. Eyjafréttir/Eyjar.net: Óskar P. Friðriksson

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti nýverið fjárhagsáætlun fyrir árið 2026. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri fór yfir uppfærða stöðu á fundi bæjarstjórnar og kom fram í framsögu að rekstur bæjarins verði áfram traustur, auk þess sem rekstrarafgangur hefur hækkað um 100 milljónir króna frá fyrri umræðu. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir 395 milljóna króna afgangi í A-hluta bæjarsjóðs og 541 milljóna króna afgangi í samstæðu. Útsvar verður áfram stærsti tekjustofn sveitarfélagsins og byggir áætlunin á nýjustu lokaspá um útsvarstekjur 2025.

Fjárfestingar og framkvæmdir næsta árs nema alls 1.080 milljónum króna. Þar af eru 805 milljónir í A-hluta og 275 milljónir í B-hluta. Áætlun fjárfestinga hækkar um 30 milljónir frá fyrri umræðu. Ekki er gert ráð fyrir framlagi vegna almannavarnalagnar á næsta ári þar sem slík uppbygging er á hendi ríkisins og viðræður standa yfir. Þá fara tæpar 492 milljónir króna í ýmis sérsamþykkt og átaksverkefni, 348 milljónir í A-hluta og 144 milljónir í B-hluta.

Skuldastaða bæjarsjóðs er áfram sterk; skuldaviðmið A-hluta verður 19,2% og samstæðu 11,4%. Lögð er áhersla á ábyrga fjármálastjórn, hóflega skattheimtu og áframhaldandi góða þjónustu við íbúa.

Tvær bókanir voru lagðar fram við afgreiðslu málsins. Bæjarfulltrúar D-lista benda á að sveitarfélagið standi frammi fyrir áskorunum, meðal annars vegna hækkunar veiðigjalda sem hafi þegar haft neikvæð áhrif á atvinnulíf í Eyjum. Einnig sé óvissa um fjármögnun vatnsleiðslu og umfangsmikil viðhaldsverkefni framundan. Þeir segja svigrúm í sjóðum bæjarins orðið lítið og mikilvægt að hagræða þar sem unnt er, en telja þó framtíðina bjarta með vaxandi íbúafjölda og blómlegu atvinnulífi. Í bókuninni gagnrýna þeir jafnframt það sem þeir kalla „skattaglaða og borgarmiðaða ríkisstjórn“.

Fulltrúar E- og H-lista lýsa í sinni bókun traustum rekstri og jákvæðri afkomu, þrátt fyrir varfærnar tekjuáætlanir. Þeir segja mikla uppbyggingu eiga sér stað í samfélaginu, bæði hjá íbúum og fyrirtækjum, og að sveitarfélagið standi vel þrátt fyrir áskoranir í rekstri og ytra umhverfi. Framundan séu spennandi tímar og mikil uppbygging.

Nýjustu fréttir

Elliði með fimm mörk í stórsigri Íslands
Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs
Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.