Ásbjörn Garðarsson félagi okkar og formaður Hildibranda félagsins hefur kvatt jarðvistina. Formaðurinn var sannarlega mikill grallari en ákaflega ljúfur og góður drengur.
Við teljum talsverðar líkur á því að hann muni örva himnaríkið, sérstaklega ef góður aðgangur er þar að kínverjum og flugeldum. Það var sannarlega oft vígvöllur í kring um kappann, enda lengi regla hjá honum að sækja dansleiki með fulla vasa af kínverjum sem hleypti miklu lífi í samkomuna.
Eitt af helstu einkennum Ábba var hversu áræðinn og óttalaus hann var. Það kom strax í ljós á hans yngri árum í styrjöldinni milli drengja Vesturbæjar og Austurbæjar. Þar var hann í forystu Vesturbæinga og ekki leið langur tími þar til allir drengir í Eyjum voru skráðir í Vesturbæinn.
Það var líka ekkert mál fyrir Ábba að skora á Jón Pál Sigmarsson heimsins sterkasta mann, í sjómann á 5 ára afmæli Hildibrandafélagsins. Ásbjörn sigraði þetta einvígi á tækniþáttum við mikinn fögnuð áhorfenda, sem fór ekki vel í Jón Pál sem rauk upp og sveiflaði okkar manni upp í loftið og vafði honum svo um hálsin á sér.
Það var gaman að fara ferðast með Ásbirni. Eitt skiptið eftir Stuðmannaball í Eyjum þá var tekin skyndiákvörðun að fljúga strax suður á annað ball með þeim. Við pöntum flug og brottförin eftir klukkutíma. Ábba fannst hann ekki alveg nógu vel klæddur í ferðina og vildi koma við heima, það var enginn tími í það. Við erum heima hjá einum af okkar köppum sem er mun stærri en Ábbi, en ákveðið samt að tékka á því hvort þar finnist einhverjir fataleppar á formanninn. Viti menn, rekum við ekki augun í fermingarföt stóra mannsins í skápnum. Málinu reddað, Don Ábbi Garðars smellpassar í grá flauelisjakkaföt. Jakkaföt eru jakkaföt þó að einhver hafi fermst í þeim í fyrndinni. Formaðurinn glæsilegur.
Það var þannig á þessum tíma þegar að ferðahugur rann snögglega á menn eins og í þessu tilfelli, þá var eðli málsins samkvæmt ekkert plan í gangi. Ekkert planað annað en næsta ball. Enginn vissi hvort þetta ferðalag yrði langt eða stutt. Við höfðum enginn áform um gistingu og enginn með neinn farangur. Þetta hlýtur að reddast, samanber fermingarfötin, ekki síst þegar formaðurinn er með í för. Ferðin stóð í tíu daga!
Við hittum á fyrsta kvöldi mann sem leist svona líka vel á okkur. Hann sagðist vera einn heima að “passa” hús fyrir foreldra sína, okkur væri velkomið að gista hjá honum. Húsið stóð við Steggjabakka en við breyttum nafninu strax í Eggjabakka. Þarna vorum við meira og minna þessa tíu daga. Allir leigubílstjórar höfuðborgarsvæðisins vissu orðið hvar Eggjabakki var. Það var ekkert óalgengt að Ásbjörn kæmi með fólk í tveim, þrem bílum í Eggjabakkapartý.
Við vorum þarna í góðum málum á milli þess sem að við fórum á Stuðmannaböll um allt land. Ferðuðumst með þeim í rútum og spiluðum stundum á stóra bongótrommu á sviðinu með Stuðmönnum. Svo lentum við einu sinni í ryskingum ásamt þeim eftir eitt ballið. Áttum fótum okkar fjör að launa upp í Stuðmannarútuna, þar sem okkur var ekið á ógnarhraða á Akureyri. Við hittum mjög mikið af fólki í þessari ferð sem við þekktum ekki áður. Þarna tókum við eftir því að fólk sem þekkti ekki Ábba laðaðist að honum. Ásbjörn var alltaf svo vinalegur og geðþekkur við alla.
Seinustu nóttina í ferðinni gistum við ekki á Eggjabakka, einhverra hluta vegna var annar aðili fenginn til að passa húsið. Gist var á farfuglaheimili. Stjórann á farfuglaheimilinu kölluðum við fuglahræðuna, það var vegna fyrri viðskipta við hann. Við vorum allir orðnir auralausir og af gömlum vana var Bragi á fluginu fengin til að lána okkur fyrir heimferðinni.
Ferðin var skemmtileg, ekki síst vegna þess að við höfðum Ásbjörn Garðarsson með okkur, skemmtilegri maður var vandfundin.
Ásbjörn var sjómaður. Við höfum flestir stundað sjómennsku með kappanum. Hann var afbragðs sjómaður og ekki síst góður félagi um borð. Mikill gleðigjafi.
Við þökkum Ásbirni fyrir einstaka vináttu og magnaðar gleðistundir.
Félagar í Hildibrandafélaginu.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst