Jonsson! var svarað sterkum rómi þegar ég hringdi í Ellu frænku og Calla til Svíþjóðar. Þau eru bæði afsprengi norrænna víkinga og bera í blóði sínu dugnað og seiglu sem harðsótt lífið í æsku krafðist. Calle ólst upp meðal 6 systkina sinna hjá einstæðri móðir lengst af. Þá þurftu vinnandi hendur að leggja sitt af mörkum eins fljótt og kostur var við búskap og sjósókn til að halda lífi yfir ískalda vetrardaga. En sumarið var ríkulegt með ávöxtum og kartöflum sem var þjóðarréttur og uppáhald Calla.
Hann var stór og glæsilegur maður sem bar af sér mikinn þokka og þetta fas sem gaf dugnaðinn og áræðinna til kynna var svo göfugt. Það var nóg að sjá hollinguna á honum og það stóð „Dugnaður“ framan á honum. Þó sveitarstörfin hafi verið lífnauðsynleg, þá kallaði Ljungskile viken á hann. Siglingar um þúsundir eyja í skerjagarðinum voru endalausir áfangastaðir á siglingum hans og Ellu öll sumur. Við Sigga erum þakklát fyrir allar ferðirnar sem við vorum með. Í ríkinu hans Bohuslän var hver höfnin af annarri og þar sigldi skipstjórinn inn og hélt í stýrið. Hann var með bláa sixpensara á höfði, kóngurinn í Buhoslän og sænskan fána í stagi. Danmörk, Noregur og Vestmannaeyjar fengu líka sínar heimsóknir og í heimi siglara var Calle þekktur og fyrir honum borin virðing. Börnin og barnabörnin tóku upp merkið og keyptu nýja skútu sem sótt verðu eftir nokkrar vikur. Þá er víst að Calle verði um borð og athugar með siglutré, segl og stög, dragur upp fokkuna, herðir á böndum til að nýta byrinn.
Calle kynntist Ellu þegar hún las sjúkraþjálfun í Lundi. Hann sýndi henni að þar var full meining að baki. Hann kom til Eyja á vertíð, var í Fiskiðjunni og fór á net með Gvendi Eyja á Gamminum. Þar um borð voru Óli Svei og Addi Bald. og fleiri Eyjamenn. Ljósmyndaáhuginn fékk útrás við myndartökur austur á Vík að berja ís af reiðum og möstrum, draga netin í norðan skít og pusi. Það var samt vægt gjald til að ná í Eyjastelpu. Hann vann við pípulagnir í Reykjavík og talaði við ömmu á Löndum á sænsku og hún svaraði á íslensku. Þau skildu hvort annað. Ömmu leist alltaf betur á þennan stæðilega svía og fyrir rest elskaði hún hann eins og við öll. Glaðan og reifan foringja á góðra vina fundum í sínum hópi.
Calle var með smábýlabúskap, átti traktor og sinnti hænum og hestum. Ruddi skógin og sagaði gilda bolina í byggingatimbur og byggði sér hús, fyrir Thor og Victor. Hann vann þrotlaust alla ævi og stöð vörð um sína, Ellu og börnin, móður sína meðan stætt var. Calle var sjálfbærnitröll löngu áður en menn vissu merkingu þess orðs. Dagurinn byrjaði með lesningu í Göteborgposten, fréttir og veðrið, verðbréf og markaðir.
Húsið þeirra Heimaklettur stendur á klettasnös í 100 metra hæð, með útsýni yfir Ljungskile viken. Þangað gengur hann ekki fleiri ferðir upp „Helvítisbrekkuna.“ En veifar sixpensaranum þegar hann siglir vestur fyrir Orust þar sem áður sló hjarta hans í brjósti Bohuslänings.
Á útfaradegi geng ég upp brekkuna og votta Ellu föðursystur minni og fjölskyldu hjartans samúð.
Ásmundur Friðriksson.
Æviágrip.
Carl-Henry Ingemar Jonsson fæddist í Ljungskile 25. janúar árið 1933. Hann lést á heimili sínu 11. apríl 2024.
Foreldrar hans voru Daníel Jonsson og Gertrud Jonsson, þau bjuggu í Hesthaga á Dyrhuvud í Ljungskile.
Carl Henry var þriðji í röð sex systkina, en þau voru í aldursröð. Arnold, Inger, Carl Henry, Tom, Bengt, og Sven Åke.
Árið 1962, þann 22. júlí giftist Carl Henry Ellu Ásmundsdóttir á Prestbakka á Síðu. Foreldrar hennar voru Ásmundur Friðriksson skipstjóra frá Löndum í Vestmannaeyjum og Elísa Pálsdóttir ljósmyndari frá Skólavörðustíg í Reykjavík.
Börn Carl Henrys og Ellu eru; 1) Thor f. 1963, yfirmaður í ríkisþjónustu. Kona hans er Mia Jonsson kennari og eiga þau synina Victor, Oscar og Harry. 2) Puck f. 1965 blaðamaður og hundaklippari, maður hennar er Carl Anton Holmgren verkfræðingur og þau eiga synina Albin og August.
Carl Henry byrjaði snemma að vinna fyrir sér og móðir sinni sem lengst af ól börnin sín ein upp. Hann gekk í Sænska herinn og var þar í 5 ár. Þá fór hann í líðháskóla og eftir það stundaði hann lengst af sölumennsku í eigin fyrirtæki. Rak umsvifamikinn innflutning á tæknivörum frá Asíu. Hann vann við þetta til starfsloka, þegar hann keypti sér innrömmunarfyrirtæki og litla verslun í Ljungskile og rak þá verslun til 70 ára aldurs.
Þá var Carl Henry félagi í Lions og Rotary í sinni heimabyggð. Þegar hann og Ella fluttu á æskuslóðir hans í Hesthaga byggðu þau sér myndarlegt hús og skírðu Heimaklett. Þar rak hann smábýlisbúskap og var lengst af með íslenska hesta. Hann var siglingamaður alla sína ævi og átti margar glæsilegar seglskútur og sigldi m.a. til Íslands og við strandir mið- og norður Evrópu. Hann stundaði líka á sínum yngri árum skíði og var mikill verkmaður og byggði tvö einbýlishús, hlöður, hænsnahús og smærri bílskúra fyrir sig og fjölskyldu sína auk þess að hjálpa Thor og Victori syni hans með byggingar á húsum þeirra á fjölskyldujörðinni í Hesthaga.
Útför Carls Henrý fer fram í Ljungs kyrka kl. 13, í dag 2. maí.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst