Fimmtán gámar féllu útbyrðis af Dettifossi, flutningaskipi Eimskip, í lok mars. Skipið laskaðist við þetta og gáma hefur rekið á fjörur á Suðurlandi.
Atvikið átti sér stað aðfaranótt 21. mars, austan við Vestmannaeyjar, þegar Dettifoss var að sigla frá Reykjavík til Reyðarfjarðar. Frá þessu er greint á DV.is.
Haft er eftir heimildarmanni DV að gleymst hafi að sjóbúa heilan „stakk“ af gámum, en stakkur er ein gámaröð. Veðrið var leiðinlegt, þó ekkert óveður, nógu slæmt var í sjóinn til þess að nokkrir stakkar af gámum fóru af stað. Enduðu alls fimmtán tómir gámar í sjónum með miklu bramli. Að sögn heimildarmanns kom gat á skipið vegna þessa.
Haft er eftir Eddu Rut Björnsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips að um sé að ræða mannleg mistök sem hafi leitt til þess að 15 tómir þurrgámar féllu í sjóinn af skipi félagsins á siglingu til Reyðarfjarðar þann 21. mars. Segir Edda að tjónið á skipinu hafi verið minniháttar.
Sáu gám á floti
Heimildarmenn DV, sem starfa sem sjómenn, furða sig á því að hafa ekki heyrt neina tilkynningu um að hafa aðgát vegna gáma. En tómir gámar, sérstaklega nýlegir, gámar geti auðveldlega flotið og skapað stórhættu fyrir smábáta. Sumir gámana hefur rekið upp í fjörur á Suðurlandi. Að sögn Eddu var Landhelgisgæslan samstundis upplýst um atvikið.
Í frétt DV er haft eftir Ásgeii Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar að áhöfn flutningaskipsins hafi haft samband við Landhelgisgæsluna að morgni 21. mars og tilkynnt um að skipið hefði misst um það bil fimmtán gáma í sjóinn út af Meðallandsbugt.
„Áhöfnin á TF-GRO var á sama tíma að undirbúa æfingarflug og var ákveðið að þyrlan færi yfir svæðið og kannaði hvort einhverjir gámar sæjust á floti. Rétt austan við Vestmannaeyjar kom áhöfn þyrlunnar auga á einn gám á floti í sjónum. Landhelgisgæslan útbjó siglingaviðvörun til sjófarenda vegna málsins sem send var með Navtex og var einnig lesin á VHF.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst