Myndaveisla: VSV-lið á útopnu á árshátíð

Þær gerast vart líflegri árshátíðirnar en sú sem starfsmenn Vinnslustöðvarinnar og Hafnareyrar sóttu í Höllinni í Vestmannaeyjum síðastliðið laugardagskvöld, 19. október. Ingó veðurguð stjórnaði samkomunni og lék fyrir dansi fram undir morgun ásamt hljómsveit sinni.

Tónelsk ungmenni úr byggðarlaginu sungu á sviðinu og slógu í gegn, annars vegar Gaddarar og hins vegar Sóley Óskarsdóttir. Á engan er hallað þegar Sóley er útnefnd senuþjófur kvöldsins. Leggjum nafn hennar vel á minnið …

Einsi kaldi er auðvitað fyrir löngu kominn yfir að þurfa að sanna sig í þeirri list að bera veislumat á borð fyrir mörg hundruð manns, fumlaust og örugglega. Sjávarfangið í forrétt var frumlega framreitt og unaðslega gott. Nautalundin var mjúk og fínlega elduð. Sætindin í eftirrétt voru eftirmáli við hæfi.

Auðvitað á ekki að vera hægt að græja matarveislu fyrir 250 manns svona vel og faglega en það gerir Einsi kaldi og starfsfólkið hans með skínandi glans.

Síðast en ekki síst ber að nefna til sögunnar Vinnslustöðvarstöllurnar Lilju Björgu Arngrímsdóttur og Sólveigu Rut Magnúsdóttur og svo Hörð Þór Harðarson sem tók í vor við rekstri Hallarinnar ásamt Einari Birni Árnasyni – Einsa kalda sjálfum.  Þegar Lilja, Sólveig og Höddi rugluðu saman reitum við undirbúning árshátíðar mátti segja sér fyrir fram að vel yrði að öllu staðið í smáu og stóru. Það gekk fullkomlega eftir.

Á miðnætti voru Hallarhliðin opnuð upp á gátt fyrir öllum sem vildu dilla sér á dansgólfi við söng og hljóðfæraslátt Ingós og veðurguðanna. Fjölda fólks dreif að úr öllum áttum úr heimapartíum til að taka þátt í gleðskapnum.

Sama gerðu starfsmenn svefnrannsóknafyrirtækis í höfuðborginni sem héldu árshátíð á öðrum stað í bænum en kíktu margir hverjir á liðið í Höllinni þegar eigin árshátíð var lokið. Svefnrannsakendur grunaði ekki að þeir fengju tvær árshátíðir fyrir eina sömu nóttina en þá þekkja þeir heldur ekki mikið til tilboða sem best gerast í Eyjum. Auðvitað gafst þeim svo enginn tími til svefnrannsókna í ferðinni, enda meira lagt upp úr því í Eyjum en á meginlandinu að vaka frekar en sofa þegar mikið liggur við.

Svo eru hér myndir af samkomunni, 327 stykki, takk fyrir.

MYNDAALBÚM árshátíðarinnar 2019

Nýjustu fréttir

Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.