Heimsókn forsetahjónanna til Vestmannaeyja hófst í gær og lýkur í kvöld. Fyrsti liður heimsóknarinnar var móttaka og opið hús í Sagnheimum, þar sem Halla Tómasdóttir forseta Íslands og Björn Skúlason var tekið hátíðlega.
Bæjarbúar fjölmenntu í Sagnheima og nutu samveru með forsetahjónunum. Á dagskrá voru tónlistaratriði, auk þess sem börn úr leikskólanum Sóla sungu. Þá fluttu forseti og bæjarstjóri stutt ávörp. Óskar P. Friðriksson, ljósmyndari Eyjafrétta mætti í Sagnheima og má sjá myndasyrpu hans hér að neðan.
Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að bæjarstjórn Vestmannaeyja taki á móti forsetahjónunum og kynni þeim mannlíf, helstu stofnanir og atvinnulíf í Eyjum. Þar kemur fram að Vestmannaeyjar séu ein mikilvægasta verstöð landsins og þekktar fyrir náttúrufegurð og blómlegt samfélag.
„Fyrir hádegi í dag verða leikskólinn Kirkjugerði, Grunnskóli Vestmanneyja og Framhaldsskóli Vestmannaeyja heimsóttir. Einnig kynna forsetahjón sér starfsemina í vinnu- og hæfingarstöðinni Heimaey, Safnahúsinu og Bókasafni Vestmannaeyja. Í hádeginu sitja forsetahjón fund með bæjarstjórninni í Ráðhúsinu og hitta starfsfólk þar. Síðdegis fara forsetahjón m.a. í heimsóknir í Ísfélag Vestmannaeyja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Laxey sem er að byggja upp landeldi í Eyjum. Þau hafa einnig viðkomu í Týsheimilinu á Hamarsvegi þar sem haldið verður árlegt Þrettándakaffi fyrir sjálfboðaliða Þrettándagleðinnar. Dagskánni lýkur á þátttöku forsetahjóna í Þrettándagleðinni á malarvelli ÍBV,“ segir í tilkynningunni.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst